Börge Aksel Jónsson, 1921 – 1994

Börge Aksel Jónsson, 1921 – 1994, fluttist til Íslands, frá Danmörku árið 1927 og síðan alkominn 1931, þegar hann giftist íslenskri konu, Unni Jónsdóttur. Börge var matsveinn að mennt og var óspar á þá kunnáttu sína fyrir félagið sérstaklega þegar hann starfaði í veitingasal Mjólkursamsölunnar síðustu starfsár sín.

Börge var féhirðir og meðstjórnandi í aðalstjórn Þróttar frá 1959 til 1974, en mest urðu félagarnir varir við hann í þeim fjöldamörgu fararstjórnum og móttökunefndum í hinum miklu samskiptum sem hann átti drjúgan þátt í að koma á milli Þróttar og danskra félaga , sérstaklega við Holbæk í 3.flokki í knattspyrnunni. Hann var mikið prúðmenni, hnyttinn í tilsvörum og mjög vinsæll meðal félagsmanna.

Börge var einnig formaður Dannebrog, félags Dana á Íslandi, um langan tíma og það var fyrir hans tilstilli að félagið fékk inni í félagsheimili þeirra í Grófinni með félagsstarf sitt, en þá hafði Þróttur verið á götunni um nokkurn tíma.Börge var sæmdur gullmerki Þróttar og silfurmerki KSÍ fyrir störf sín, ásamt Dannebrogsorðunni.