Lög Knattspyrnufélagsins Þróttar

Lög Knattspyrnufélagsins Þróttar

1. gr.
Nafn félagsins og varnarþing

Félagið heitir Knattspyrnufélagið Þróttur, skammstafað KÞ.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur félagsins

Markmið félagsins er að standa fyrir iðkun íþrótta, uppeldis- og tómstundastarfs meðal félagsmanna, auka áhuga þeirra á líkamlegu heilbrigði og efla íþróttastarf á starfssvæði sínu.  Sérstök áhersla er lögð á íþrótta- og uppeldisstarf með börnum og unglingum með það að meginmarkmiði að stuðla að heilbrigðu líferni og félagsþroska.

3. gr.
Aðild að heildarsamtökum

Félagið er aðili að Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ) og sérsamböndum þess og Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og sérsamböndum þess, eftir því sem við á hverju sinni, og er háð lögum þess og ákvörðunum.

4. gr.
Deildir og ráð félagsins

Félagið skiptist í eftirtaldar deildir, eftir íþróttagreinum, sem starfa skulu eftir því sem starfa skulu eftir því sem nánar er greint í samþykktum þessum, sbr. 10. gr.:

Til stofnunar nýrrar deildar þarf samþykki aðalfundar, en milli aðalfunda getur aðalstjórn félagsins heimilað starfsemi nýrrar deildar, og skal aðalstjórn þá skipa henni bráðabirgðastjórn sem heimilt skal að taka allar nauðsynlegar ákvarðanir er varða deildina.

Að öðru leyti gilda um deildir og ráð félagsins ákvæði 10. gr. laga þessara.

Þegar rætt er um deildir í lögum þessum er einnig vísað til deildarráðs.

5. gr.
Merki félagsins og búningar

Merki félagsins er skjöldur, en grunnur hans er hvítur með rauðum langröndum og svartri rönd í kring, en í miðjum fleti eru stafirnir KÞ með svörtu letri á knetti, sem dreginn er með svörtum línum.

Búningur félagsins er peysa með hvítum og rauðum langröndum. Deildum félagsins er heimilt að útfæra keppnisbúning deildarinnar að öðru leyti. Keppnisbúningur skal hljóta samþykki aðalstjórnar.

Varabúningar félagsins skulu hljóta samþykki aðalstjórnar.

Breytt á aðalfundi 22.4.2024

6. gr.
Félagsmenn

Félagið er opið öllum sem áhuga hafa á að starfa innan félagsins að íþrótta- og félagsmálum.  Meðlimir félagsins getur sá einn orðið, sem skráður er í félagatal félagsins og greiðir félagsgjöld, sbr. 7. gr.

Þá eru félagsmenn jafnframt Heiðursfélagar og almennir skráðir félagsmenn, sbr. 7. gr.

7. gr.
Félagsgjöld
Félagsgjöld almennra skráðra félagsmanna greiðast skv. ákvörðun aðalfundar félagsins, og renna félagsgjöld til aðalstjórnar.
Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda.

[2] Breytt á aðalfundi 15.7.2015

8. gr.[3]
Aðalstjórn Þróttar
Aðalstjórn félagsins skipa fimm menn og tveir til vara.
Formaður skal kosinn til eins árs í senn.  Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn, tveir ár hvert.  Í varastjórn skulu kosnir tveir menn til eins árs.  Fyrst skal kosinn formaður og síðan meðstjórnendur, sbr. 11. gr.  Þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins eða varastjórn skulu tilkynna það til stjórnar eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, kýs sér varaformann, gjaldkera og ritara.  Láti stjórnarmaður af störfum á miðju kjörtímabili tekur varamaður sæti hans.

Stjórnarmenn geta ekki jafnframt gengt stjórnarsetu í einstökum deildum félagsins.

[3] Breytt á aðalfundi 15.7.2015

9. gr.
Starfssvið aðalstjórnar
Aðalstjórn félagsins ber að efla félagið eftir fremsta megni í samræmi við markmið þess og gæta hagsmuna þess í hvívetna.  Aðalstjórn hefur umráðarétt yfir öllum eignum félagsins, nema sérsjóðum deildanna og ræður starfsemi þess í aðalatriðum í samráði við deildarstjórnir.

Aðalstjórn skal skipa alla trúnaðarmenn félagsins og þær nefndir sem hún telur þörf fyrir á hverjum tíma.

Aðalstjórn félagsins fer með fjármál Knattspyrnufélagsins Þróttar og ber endanlega ábyrgð á fjármálum allra deilda félagsins.

Allar tekjur sem hljótast af mannvirkjum í eigu eða undir umsjón félagsins skulu renna til aðalstjórnar.  Aðalstjórn gerir samninga við deildir félagsins um rekstur mannvirkja og tekjur og kostnað af þeim.

Stjórnarmenn aðalstjórnar skulu bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu um málefni einstakra deilda sem leynt skulu fara, svo sem upplýsingar um viðkvæma samninga og fjárhagsskuldbindingar.

Aðalstjórn ræður framkvæmdarstjóra og íþróttafulltrúa félagsins.  Skal verksvið framkvæmdastjóra m.a. vera daglegur rekstur félagsins, umsjón með bókhaldi og fjárreiðum þess, samskipti við iðkendur, félagsmenn og önnur íþróttafélög.  Aðalstjórn skal setja framkvæmdarstjóra starfsreglur, sem honum ber að fara eftir.

Aðalstjórn skal halda utan um heildarskrá félagsmanna, skv. félagsskrám deilda, sbr. 10. gr.

Formaður boðar til stjórnarfunda þegar hann eða meirihluti stjórnar telur nauðsynlegt.

 

10. gr.
Deildir félagsins

Deildarstjórnir skulu fara með daglegan rekstur deilda milli aðalfunda þeirra og hefur endanlegt ákvörðunarvald í öllum málefnum deildarinnar.

Deildum félagsins er heimilt að setja sér sérstakar starfsreglur, enda samræmist þær lögum þessum.  Samþykktir deilda skulu bornar undir laganefnd félagsins skv. 20. gr. sem skal skera úr um hvort þær samrýmist lögum þessum, áður en þær eru lagðar undir aðalfund viðkomandi deildar til samþykkis eða synjunar.  Á þetta einnig við um tillögur að breytingu á gildandi samþykktum deilda félagsins.

Hver íþróttadeild félagsins hefur eigin stjórn og fjárhag.  Stjórn hverrar íþróttadeildar félagsins skipa a.m.k. þrír stjórnarmenn, þ.e. formaður, gjaldkeri og ritari, sem skulu kosnir á aðalfundi deildanna, sbr. 12. gr.  Þá er stjórn deildar heimilt að skipa fleiri stjórnarmenn til setu í stjórn milli aðalfunda.

Hver íþróttadeild skal halda nákvæma skrá yfir félaga og senda aðalstjórn.  Skráin skal endurskoðuð á hverju starfsári.

Innan hverrar deildar er heimilt að skipa sérstök ráð, sem starfa innan viðkomandi deildar, og hefur með höndum afmarkaða starfsemi deildarinnar, svo sem barna- og unglingastarf og starf meistaraflokka, sem skal eftir ákvörðun viðkomandi deildar, hafa eigin fjárhag og stjórn, en starfar að öðru leyti undir umsjón og eftirliti viðkomandi deildar.

Hver deild, og eftir atvikum ráð, hefur tekjur af iðkendagjöldum, íþróttakeppnum og þeim fjáröflunum, sem hún tekur sér fyrir hendur í samráði við aðalstjórn félagsins.  Deildarstjórn íþróttadeildar skal leggja fram heildarfjárhagsáætlun deildarinnar, þ.m.t. fjárhagsáætlun einstakra deildarráða, fyrir 1. nóvember ár hvert fyrir næstkomandi starfsár, til samþykktar aðalstjórnar.

Stjórnir íþróttadeilda og deildarráða ráða þjálfara og ákveða laun þeirra.

Allar meiriháttar fjárhagsskuldbindingar deilda og ráða skal leggja fyrir aðalstjórn og taka þær ekki gildi fyrr en aðalstjórn hefur fjallað um þær og samþykkt.  Skal aðalstjórn afgreiða slík erindi án tafar.  Til meiriháttar skuldbindinga teljast m.a. lántökur, þ.m.t. yfirdráttarlán og skuldbindingar sem víkja frá útgjaldahluta fjárhagsáætlunar viðkomandi deildar.

Aðalstjórn hefur á hverjum tíma rétt til að skoða bókhald og fjárreiður deilda.  Telji aðalstjórn fjárreiðum deilda félagsins ábótavant er aðalstjórn heimilt að skipa sérstaka eftirlitsnefnd, sem rannsaka skal fjárreiður deildar og koma með tillögur til úrbóta.  Fari stjórn viðkomandi deildar ekki að tillögum eftirlitsnefndar er aðalstjórn heimilt að svipta viðkomandi deild fjárforræði tímabundið, þar til fjárreiðum þess hefur verið komið í rétt horf að mati eftirlitsnefndar.

11. gr.
Aðalfundur félagsins
Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málum þess og hefur einn vald til að breyta lögum þess. Aðalfund skal halda eigi síðar en 25. maí ár hvert, fyrir starfsárið þar á undan og skal til hans boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara í miðlum félagsins, svo sem á heimasíðu þess, eða með öðrum sambærilegum hætti. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Allir skuldlausir félagsmenn, 18 ára og eldri, sem skráðir hafa verið í félagatal a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund, eru kjörgengir til stjórnarstarfa og hafa tillögu- og atkvæðisrétt á aðalfundi félagsins. Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, ef atkvæði falla jöfn, skal tillaga sem borin er fram teljast felld. Þetta á þó ekki við um kjör í stjórnar- og trúnaðarstörf.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Formaður félagsins setur fundinn.
 2. Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
 3. Fundargerð síðasta aðalfundar borin undir atkvæði.
 4. Formaður félagsins flytur skýrslu um liðið ár og gjaldkeri skýrir reikninga félagsins.
 5. Greint frá skýrslum deilda og nefnda, eftir því sem tilefni gefst til.
 6. Lagabreytingar, ef tillögur um þær liggja fyrir.
 7. Kosin aðalstjórn félagsins. Fyrst skal formaður félagsins kosinn, að því loknu fer fram kosning til stjórnar félagsins.
 8. Kosning tveggja endurskoðenda reikninga og tveggja varamanna, en þeir skulu jafnframt vera endurskoðendur reikninga deilda félagsins.
 9. Tekin ákvörðun um árgjald almennra skráðra félagsmanna,
 10. Önnur mál.
 11. Fundarslit.

Kosning til stjórnar og annarra trúnaðarstarfa skal vera leynileg, nema eigi séu fleiri í kjöri en kjósa á.  Séu atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða.

 

12. gr. [4]
Aðalfundir deilda félagsins
Aðalfundur knattspyrnudeildar félagsins skal haldinn á tímabilinu 1. október til 1. nóvember ár hvert fyrir starfsárið þar á undan. Aðrar deildir félagsins skulu halda aðalfund sinn eigi síðar en 15. maí ár hvert. Vanræki deild að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal aðalstjórn félagsins boða til aðalfundar deildarinnar og sjá um framkvæmd hans.

Dagskrá aðalfundar deilda skal vera eftirfarandi:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Formaður deildar, og eftir atvikum formaður deildarráðs, flytur skýrslu liðins starfsárs og gjaldkeri skýrir reikninga deildarinnar.
 3. Kosning deildarstjórnar, og eftir atvikum deildarráða. Fyrst skal kosinn formaður. Að því loknu fer fram kosning til stjórnar. Nýkjörinn formaður getur óskað eftir því við aðalfund, að fram fari listakosning til stjórnar.  Ef aðeins einn listi berst teljast þeir aðilar sjálfkjörnir.

Að öðru leyti gilda um aðalfund deilda sömu reglur og um aðalfund félagsins skv. 8. gr., eftir því sem við á.

[4] Samþykkt á aðalfundi 16 ágúst 2016

 

13. gr.
Aukaaðalfundir og aukafundir

Aðalstjórn félagsins skal kalla saman aukaaðalfund ef þörf þykir.

Aukaaðalfundur er lögmætur sé til hans boðað og hann sóttur í samræmi við 11. og 12. gr.

Þá hafa stjórnir deilda heimild til þess að kalla saman aukafund deildar sé þess krafist af a.m.k. 30 félagsmönnum, sama á við um aukafund félagsins.

14. gr.
Reikningsár

Reikningsár félagsins og íþróttadeilda er almanaksárið og skulu allir reikningar vera komnir til

endurskoðenda félagsins eigi síðar en fjórtán dögum fyrir aðalfund félagsins og liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar félagsmönnum sjö dögum fyrir aðalfund félagsins.

Þá ber aðalstjórn að leggja fram samstæðureikning á aðalfundi félagsins.

Sjö dögum fyrir aðalfund deilda skulu reikningar deildar liggja frammi á skrifstofu félagsins.

15. gr.
Eignir félagsins
Eignir íþróttadeilda teljast sameign félagsins og skulu verðlaunagripir og verðmæt skjöl vera í vörslu aðalstjórnar.

Hætti deild störfum renna eigur hennar tímabundið til aðalstjórnar, sem skal halda þeim aðgreindum frá öðrum fjármunum aðalstjórnar.  Hefjist starfsemi hennar ekki að nýju innan tveggja ára, ber að sækja um stofnun að nýju skv. 4. gr.  Taki deildin ekki til starfa að nýju innan fimm ára, renna eigur hennar endanlega til aðalstjórnar félagsins.

Fasteignum félagsins má aðeins ráðstafa, selja eða veðsetja með samþykki  3/4 hluta fundarmanna á aðalfundi eða aukaaðalfundi. Skulu tillögur að slíkri ráðstöfun kynntar minnst sjö dögum fyrir fund.

16. gr.
Siðareglur
Félagið skal setja sér siða- og starfsreglur, sem samþykktar skulu á aðalfundi félagsins.

17. gr.
Fagráð deilda Þróttar
Innan hverrar deildar félagsins skal stefnt að því að starfrækt verði sérstakt fagráð, sem skipað er af stjórn viðkomandi deildar til eins árs í senn.  Í fagráði eru a.m.k. þrír fulltrúar og skipta þeir með sér verkum.  Fagráðið kýs sér sjálft formann og ritara.  Hlutverk fagráðsins er að stuðla að faglegri vinnu þeirra þátta sem lúta að grunnstarfsemi félagsins sem íþrótta- og tómstundafélags. Fagráðið skal ætíð hafa að leiðarljósi hagsmuni iðkenda sem einstaklinga með fjölbreytilegar væntingar og þarfir og leitast við að tryggja að þeim séu búnar þær bestu aðstæður sem tök eru á hverju sinni.

18. gr.
Stjórn Rey Cup
Innan Þróttar er starfandi sérstök rekstareining sem m.a. fer með málefni Alþjóðlegu knattspyrnuhátíðarinnar í Reykjavík, „REY CUP“. Knattspyrnuhátíðin er hluta af starfsemi félagsins og starfar á grundvelli sérstakrar samþykktar stjórnar Þróttar um knattspyrnuhátíðina. Stjórn félagsins skipar stjórn rekstareiningarinnar sem fer með forsvar og ábyrgð á REY CUP í umboði stjórnar Þróttar.

19. gr.
Aganefnd 
Á vegum félagsins skal starfrækt sérstök aganefnd, sem taka skal til meðferðar mál félaga og/eða iðkenda sem taldir eru hafa sýnt af sér vítaverða framkomu gagnvart félaginu, eða unnið gegn hagsmunum þess að öðru leyti.

Aganefnd skipa tveir fulltrúar skipaðir af aðalstjórn, auk eins fulltrúa skipuðum af hverri deild félagsins.  Við meðferð einstakra mála skal aganefnd jafnframt fá til setu í nefndinni einn dómara í viðkomandi íþróttagrein sem málið varðar, eða annan sérfræðing sem hún metur hæfan til umfjöllunar málsins.

Skipa skal menn til setu í aganefnd til tveggja ára, frá 1. júní annað hvert ár.

Aganefnd skal sjálf skipa sér formann og ritara.

Afl atkvæða ræður niðurstöðu aganefndar.  Falli atkvæði jafnt, ræður atkvæði formanns.

Aganefnd getur mælt fyrir um refsingu vegna brots félagsmanns eða iðkanda, í samræmi við eðli og umfang brots.  Ef brot er smávægilegt að mati aganefndar, skal hún beita áminningu.  Sé brot stórvægilegt eða ítrekað þrátt fyrir fyrri áminningar er aganefnd heimilt að mæla fyrir um tímabundið leik – / keppnisbann iðkenda, eða eftir atvikum vikið félagsmanni úr félaginu, tímabundið eða fyrir fullt og allt.

Aganefnd skal gefa viðkomandi aðila kost á að koma að sjónarmiðum sínum, annað hvort skriflega eða munnlega.

Viðkomandi félagsmanni er heimilt að vísa ákvörðun aganefndar til aðalstjórnar til endurskoðunar, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því viðkomandi félagsmanni var gerð kunnug ákvörðun aganefndar.  Ákvörðun aðalstjórnar má bera undir aðalfund félagsins.

20. gr.
Laganefnd
Innan félagsins skal starfrækt laganefnd, sem hefur það að markmiði að endurskoða lög og starfsreglur félagsins, þ.á m. siðareglur.

Laganefnd skal skipuð þremur félagsmönnum, skipuðum af aðalstjórn félagsins.

Laganefnd skal skipuð til tveggja ára, frá 1. júní annað hvert ár.

21. gr.
Heiðursviðurkenningar 
Heiðursmerki og aðrar viðurkenningar fyrir íþróttaárangur og störf í þágu félagsins eða íþróttahreyfingarinnar veitir aðalstjórn. Til ákvörðunar um heiðursfélaga þarf samþykki allra stjórnarmanna.

22. gr.
Íþróttamaður Þróttar
Aðalstjórn skal, að tilnefningu deildarstjórna, árlega velja íþróttamann Þróttar úr hópi þeirra íþróttamanna sem skarað hafa fram úr á árinu.

Íþróttamaður Þróttar hlýtur farandbikar í eitt ár, auk eignargrips.

Deildarstjórnir skulu tilnefna unga og efnilega íþróttamenn Þróttar, sem fá viðurkenningar frá félaginu.

Einnig skal veita þeim íþróttamönnum viðurkenningu sem keppa fyrir hönd Íslands í fyrsta sinn.

Kjör íþróttamanns Þróttar skal haldið ár hvert á tímabilinu 15. desember til 15. janúar.

23. gr.
Lagabreytingar
Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi félagsins með 2/3 hlutum atkvæðisbærra fundarmanna.

Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist aðalstjórn a.m.k. fjórtán dögum fyrir aðalfund félagsins, og skulu liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi skemur en eina viku fyrir aðalfund til kynningar.

24. gr.
Gildistaka
Með lögum þessum eru öll eldri lög félagsins úr gildi numin.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á aðalfundi Þróttar 22. apríl 2024.