Kjartan Kjartansson, 1949 –

Kjartan Kjartansson, 1949 -, hóf íþróttaferil sinn í yngstu flokkunum og lék upp alla flokka, bæði í knattspyrnu og handbolta.  Hann steig sín fyrstu spor með Þrótti á Grímsstaðaholtsvellinum við Suðurgötu og var fljótur að finna netmöskva mótherjanna í knattspyrnunni og raðaði inn mörkum í öllum flokkum.  Hann var mjög fljótur og áttu varnarmenn í miklum erfiðleikum með að hemja hann.  Kjartan var í liði Þróttar sem varð Reykjavíkurmeistari 1966 í meistaraflokki, aðeins 17 ára, og sama ár var hann valinn í U-18 ára landslið Íslands og lék með því tvo leiki og varð þar með fyrsti Þróttarinn til að leika með yngri landsliðum Íslands.  Árið eftir var hann aftur valinn í liðið en varð þá fyrir því óhappi að fótbrotna og missa af leikjum liðsins það árið.  Geta hans fór ekki framhjá stóru klúbbunum og svo fór að Fram tókst að tryggja sér þjónustu hans eftir að hann hafði leikið 62 leiki með meistaraflokki Þróttar.

Tengsl Kjartans við félagið minnkuðu lítið þó hann léki fyrir annað félag, bæði var hann áfram á fullu í handboltanum og lét mikið að sér kveða í starfi þess, t.d. þegar félagið eignaðist heimilið við Sæviðarsundið þá var hann óþreytandi með málningarverkfærin en hann stjórnaði allri málningarvinnunni þá og einnig síðar.  Oft þegar kalla þurfti saman gömlu félagana þá var það Kjartan sem tók að sér verkið og stjórnaði hann ófáum samkomunum.  Hann var einnig góður langhlaupari og vann m.a. Víðavangshlaup drengja eitt árið auk sem hann kom oft fyrstur í mark í hinum ýmsu spretthlaupum.

Í tilefni 50 ára afmælis félagsins gerði Kjartan líkön af „Bragganum“ og heimilinu í Sæviðarsundi, en því miður voru þau skemmd á árunum á eftir. Á  70 ára afmælissýningu félagsins var aftur komið líkan af „Bragganum“ og grunur leikur á að Kjartan sé byrjaður að plana nýtt líkan af Sæviðarsundsheimilinu.