Allt frá því á vordögum hafa átt sér þreifingar til samstarfs við önnur félög í meistaraflokki í handbolta en nú er staðfest að þær tilraunir hafa verið árangurslausar. Þá er ljóst að ekki er grundvöllur fyrir rekstri meistaraflokks innan Þróttar að svo stöddu og verður því ekki lið skráð til leiks í Íslandsmóti á næsta keppnistímabili. Rekstrarumhverfi handbolta í félaginu hefur verið erfitt undanfarin ár, aðstöðuleysi háir okkur verulega, fjárhagslegur grundvöllur veikur sem og minnkandi áhugi á aðkomu félagsmanna að starfinu. Ein af forsendum þess að hægt sé að halda úti handknattleiksliði í meistaraflokki er að félagið hafi aðgang að eigin húsnæði líkt og önnur félög og unnið er að því hörðum höndum í samráði við borgaryfirvöld að svo verði.
Á komandi tímabili verða æfingar í yngri flokkum með hefðbundnum hætti og verður lögð áhersla á að byggja upp yngri flokka starfið til næstu ára með það að markmiði að halda utan um þá hópa sem fyrir eru að æfa og fjölga jafnframt iðkendum jafnt og þétt. Auglýst hefur verið eftir þjálfurum fyrir veturinn og eru bundnar vonir til þess að hægt mynda stjórn barna- og unglingaráðs innan handknattleiksdeildarinnar bráðlega með þátttöku félagsmanna og foreldra iðkenda.
Aðalstjórn Þróttar