Jón H. Ólafsson, 1937-,

Jón H. Ólafsson, 1937-, fór fljótlega að fylgjast með starfinu í Þrótti eftir að sonur hans Kristján hóf að æfa knattspyrnu með félaginu upp úr 1970.  Það leið ekki á löngu þar til hann var kominn á kaf í stjórnarstörf fyrir félagið, því 1982 var hann kosinn í stjórn knattspyrnudeildar og starfaði þar sleitulaust til ársins 1989, þar af sem formaður frá 1986 – 1989.  Hann sat í aðalstjórn sem formaður deildarinnar, en var síðan kosinn í stjórnina 1991 og sat þar í tvö ár.  Hann fór fljótlega að mæta í skákina hjá félaginu sem hafði verið endurvakin skömmu eftir flutning félagsins í Sæviðarsundið en var lögð af 1992.  Árið 2004 þótti Jóni og Helga Þorvaldssyni, sem hafði verið með honum í skákinni, tími til kominn að endurvekja þessa fögru íþrótt í Þrótti og tókst að safna saman dágóðum hóp skákmanna sem enn sitja við taflið tvisvar í mánuði yfir vetrartímann.  Jón er ekki að þessu bara til að vera með því 2010 varð hann „Skákmeistari Þróttar“. Hann er eins og flestir vita málarameistari og það eru ófá pensilförin eftir hann í Þróttarheimilunum.  Jón hefur verið sæmdur silfurmerkjum Þróttar, KRR og KSÍ fyrir störf sín.