Jón Ólafsson, 1963-,

Jón Ólafsson, 1963-, hóf að æfa hjá Þrótti í yngstu flokkunum og hann var ekki gamall þegar hann vann Íslandsmeistaratitil með félaginu, í 5.flokki 1975.  Knattspyrnuferillinn varð ekki langur hjá honum því hljómlistin átti hug hans allan, eins og svo margra Þróttara, og í 2.flokki sneri hann sér algjörlega að músikinni og kom ekki til baka fyrr en í Eldri flokki og þar er hann enn á fullu. Jón er mikill tónlistarmaður, eins og alþjóð veit, og þar hefur hann reynst félaginu sérstaklega vel, með fjáröflunartónleikum og dansleikjum í félagsheimilinu, þar sem hann hefur notið liðsinnis margra frábærra listamanna.  Þá hefur hann verið einn af forsprökkunum í útgáfu á stuðningsdiskum Köttara, Portrett Þróttur, Þróttaranammi og Orkan í Þrótti.  Jón hefur tvisvar setið í stjórn knattspyrnudeildar og þá var hann einn af forsvarsmönnum „Kaupfélagsins-Hjartað í Þrótti“ sem hefur lagt nótt við nýtan dag til að safna peningum í léttan kassa félagsins.  Þá hefur hann komið að fatasölu Köttara undanfarin ár.  Einn af þjálfurum Jóns, Helgi Þorvaldsson, segir þessa skemmtilegu sögu af honum, „Við vorum í Skotlandi þegar Jón var í 3.flokki og okkur var boðið í móttöku í Dómkirkjunni í Hamilton, sem er í útjaðri Glasgow, og ætlaði borgarstjóri Hamilton að hitta okkur þar. Eitthvað seinkaði honum og hafði Jón sest við orgel kirkjunnar og hóf nú að leika vinsælt dægurlag á orgelið. Við tókum eftir manni sem hafði komið inn í anddyrið en kom ekki lengra á meðan á tónleikum Jóns stóð. Þetta var borgarstjórinn og sagði hann þegar hann kom til okkar að hann hefði ekki viljað stoppa þessa frábæru spilamennsku“.  Jón hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og silfurmerki KSÍ, fyrir störf sín.