Sigurður Þorvaldsson, 1960-, hóf að æfa og leika með Þrótti strax eftir flutninginn í Sæviðarsundið 1969, þótt hann byggi í miðju Víkingshverfinu. Það kom ekkert annað félag en Þróttur til greina, enda höfðu faðir hans, Þorvaldur Ísleifur, og þrír eldri bræður, Haukur, Helgi og Þorvaldur, allir leikið og starfað hjá félaginu. Sigurður byrjaði í 5.flokki en eftir sigur á móti í 4.flokki ákvað hann að leggja skóna á hilluna „á toppnum“ eins og hann orðaði það. Hann kom þó fljótt til baka, enda kalt á toppnum.
Hann mætti til starfa aftur á seinna ári í 3.flokki og hefur verið að síðan og á m.a. nokkra sigra með 1.flokki, núna er hann á fullu í Eldri flokki. Hann tók að sér þjálfun 5.flokks 1982, sem lék til úrslita á Íslandsmótinu, en varð að láta sér linda silfrið. Hann hélt áfram með flokkinn 1983 og 1988 þjálfaði hann 3.flokk. Þá þjálfaði hann 4. og 2.flokk tímabundið. Einnig þjálfaði hann hjá ÍR, Stjörnunni, Val og Fylki um tíma. Sigurður sat í unglingaráði knattspyrnudeildar áður en hann var kosinn í stjórn deildarinnar 1982 , þar sem hann sat í tvö ár og árið 1995 var hann kosinn í aðalstjórn, þar sem hann var ritari stjórnar Tryggva Geirssonar til 2002 og lagði sitt af mörkum við að flytja félagið í Laugardalinn og sigla því inn í 21. öldina. Þá sat hann í stjórn handknattleiksdeildar þegar stærsti sigur félagsins vannst, þ.e. sigur í Bikarkeppninni 1981. Hann sat í stjórn KRR í þrjú ár. Einnig stjórnaði hann Þróttarbingóinu í Glæsibæ fyrstu árin svo og flugeldasölu félagsins um árabil. Búandi í miðju Víkingshverfi lenti það á honum að verja Þróttar-búningana sem móðir hans Ásfríður þvoði um langt árabil og þá var allur þvottur þurrkaður „úti á snúru“.
Sigurður hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og KRR og silfurmerki KSÍ fyrir störf sín.