Aðstöðumál Þróttar í forgangi hjá Reykjavíkurborg

Ný forgangsröðun við uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjavík var samþykkt á fundi borgarráðs fimmtudaginn 3. september. Tvö stór verkefni á vegum Þróttar, annars vegar nýtt íþróttahús og hins vegar uppbygging á tveimur nýjum upplýstum gervigrasvöllum á Valbjarnarvelli, eru í 2. og 3. sæti. Þetta eru miklar gleðifréttir fyrir félagið en aðalstjórn félagsins hefur á undanförnum árum eytt gríðarlegum tíma í að sannfæra borgaryfirvöld um nauðsyn þess að bæta aðstöðu Þróttar, Ármanns og skólana í Laugardalnum sem sannanlega hefur verið mun lakari en í öðrum hverfum höfuðborgarinnar.

Á þessum nýja forgangslista eru 18 verkefni. Forgangsröðun er byggð á mati á bæði fjárhagslegum og félagslegum þáttum og skoruðu verkefni á vegum Þróttar mjög hátt á báðum sviðum. Allt útlit er því fyrir að gjörbreyting geti orðið á aðstöðu félagsins á næstu árum, en rétt er að hafa í huga að mál eins og þessi taka langan tíma. Áframhaldandi samtal  við Reykjavíkurborg hefst þegar í þessari viku og vonandi skýrist fljótlega hvenær hægt verður hefjast handa við skipulag, hönnun og undirbúning að framkvæmdum.

Lifi Þróttur.