Einar Sveinsson, 1956-,

Einar Sveinsson, 1956-, hóf ungur að æfa bæði handknattleik og knattspyrnu með Þrótti, en snemma hneigðist áhuginn meir að handknattleiknum og lék hann upp alla flokka og var m.a. með í ævintýrinu þegar Þróttur sigraði hið „ósigrandi“ lið Víkinga í æsispennandi úrslitaleik í Bikarkeppni HSÍ 1981 og í framhaldinu tók félagið þátt í Evrópukeppni bikarhafa þar sem liðið var mjög nálægt því að komast í sjálfan úrslitaleikinn.  Þeir Einar og Siggi bróðir hans léku saman um tíma og eftir einn leik þeirra, þar sem liðið hafði skorað sautján mörk sagði Einar öllum þeim sem vildu hlusta að þeir bræður hefðu skorað öll mörk liðsins í leiknum, en þegar gengið var á hann kom í ljós að Siggi hafði skorað sextán mörk, Einar eitt.  Einar sat í stjórn handknattleiksdeildar, þar af um tíma sem formaður.  Þá tók hann dómarapróf 1972 og dæmdi , með hléum þó til 2005, er hann dæmdi sinn síðasta leik í efstu deild.  Árið 2011 gerðist hann eftirlitsmaður dómara og er enn að.  Einar hefur verið sæmdur gullmerki HSÍ og HDSÍ og silfurmerki Þróttar, fyrir störf sín.