Indriði H. Þorláksson, 1940-,

Indriði H. Þorláksson, 1940-,  ákvað ungur að gera tennisíþróttina að sinni íþrótt en hafði áður stundað knattspyrnu og körfubolta. Fátt var um tennisvelli í Reykjavík en árið 1989 var tennisdeild Þróttar stofnuð og komið var upp aðstöðu við enda malarvallarins inni við Sæviðarsund. Indriði hóf þá að venja komu sína þangað og mynduðust sterk bönd með tennisfrumkvöðlunum í Þrótti, bönd sem enn halda. Árið 2001 tók Indriði svo við forystu deildarinnar, en um svipað leyti flutti tennisdeildin, líkt og aðrar deildir félagsins niður í Laugardal. Komið var upp nýjum tennisvöllum við suðurenda Valbjarnarvallar. Sú aðstaða var tekin í notkun árið 2002 og voru þá vellirnir inni við Sæviðarsund aflagðir, og var tennisdeildin síðasta deildin til að flytja sig um set úr Sæviðarsundinu. 

Indriði var formaður tennisdeildar í 20 ár sem er lengsta seta deildarformanns í sögu félagsins. Við fengum hann til að segja okkur frá starfi deildarinnar á þessum árum. „Aðstaða innanhúss hefur aldrei verið til staðar, sem hefur valdið því að einkum hefur verið lögð áherslu á tennis sem almenningsíþrótt. Þjálfun afreksmanna er ekki möguleg án inniaðstöðu og nýliðun með kennslu ungliða gengur ekki af sömu ástæðum. Deildin hefur því einbeitt sér að því að höfða til allra aldursflokka.“ 

Verkefni tennisdeildar snýst ekki síst að viðhaldi á aðstöðu deildarinnar, „Tennisvellirnir eru luktir trjágróðri á þrjá vegu en opnir fyrir norðangjólunni, sem getur verið býsna hressandi. Þeir eru með gervigrasi á gegndreypu undirlagi, snjóbræðslu og flóðlýsingu og má nota þá í flestum veðrum mestan part ársins þótt kalsamt sé í mesta skammdeginu. Að vori mætir stjórnin og dyggir félagar einhverja góðveðurshelgina, hreinsa vellina og setja upp vindhlífar og gera vellina tilbúna fyrir átök sumarsins.“

Tennismenn í Þrótti hafa staðið fyrir margskonar námskeiðum, fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Meðal annars voru farnar reglulega æfingarferðir til Kóratíu, þar sem iðkendur gátu notið góðra leirvalla, auk ýmissa annarra fríðinda á borð við nuddpotta og gufuböð, og létu þátttakendur það ekki á sig fá í eitt skiptið þegar vellirnir voru staðsettir í miðri nektarnýlendu, rifjar Indriði upp og kímir.

Sem fyrr segir þá er formennska Indriða orðin löng, 20 ár, en um stjórnarstörfin segir hann: „Formennska þessa tvo áratugi hefur verið ánægjuleg ekki síst vegna þess að meðstjórnendur hafa af ósérhlífni axlað öll erfiðust verkefnin. Hafa þeir annast samstarf innan Tennissambands Íslands og skipulagt og séð um þau mót sem deildin hefur staðið fyrir og ætíð verið reiðubúnir til að sinna aðkallandi verkefnum.“ 

Indriði hefur hlotið silfurmerki Þróttar fyrir störf sín.

Þess má svo geta að lokum að Indriði fagnar stórafmæli í dag, 28. september, og óskar Þróttur honum til hamingju með daginn.