Þróttari vikunnar

Pétur Ingólfsson, 1946-,kynntist Þrótti þegar fjölskyldan flutti í Karfavog, árið 1986.  Ingólfur sonur hans, sem þá var 12 ára, hóf þá að æfa knattspyrnu hjá Þrótti og Pétur fór að mæta á völlinn þegar hann var að keppa.  Þjálfarinn var mjög áhugasamur en aðstaðan var ekki góð.  Allar æfingar og keppni fóru þá fram á malarvellinum.  Árið 1988 var Pétur kosinn stjórn knattspyrnudeildar og aftur 1990  og tveimur árum síðar í aðalstjórn, þar sem hann sat í þrjú ár.  Gefum Pétri orðið: „Mér er ríkast í huga vinna vegna framkvæmda á félags-svæðinu.  Þar þurfti margt að laga og bæta.  Meðal annars var svæðið ógirt og notuðum við Friðjón Einarsson, nú bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, hluta af sumarfríinu okkar , eitt árið, til að girða svæðið og fengum hjálp frá meistaraflokknum til að strengja á vírnetið.  Þegar meistara-flokkur karla fór að leika heimaleiki sína á grasvellinum vantaði alla aðstöðu fyrir áhorfendur og sýndi Vegagerðin, sem ég starfaði þá hjá, þau liðlegheit að gefa Þrótti áhorfendastúku sem gerð hafði verið vegna messu sem Páfinn hélt á Þingvöllum.  Naut Þróttur þess að Helgi Hallgrímsson, yfirmaður Brúardeildar Vegagerðarinnar, faðir þeirra tvíbura Ásmundar og Gunnars og leikmaður í fyrsta meistaraflokki Þróttar, lagði málinu lið.  Stúkan var síðan nefnd „Páfastúkan“.  Árið 1989 var Tennisdeild Þróttar stofnuð hjá Þrótti og byggði hún með fjárframlagi frá Reykjavíkurborg tvo keppnisvelli.  Fjárframlagið dugði aðeins fyrir kostnaði vegna efniskaupa og vélavinnu.  Öll önnur vinna var unnin í sjálfboðavinnu af frekar fámennum hópi.  Pétur hlaut þann heiður að bera félagsskírteini númer 1 í Tennisdeildinni.  Síðar fylgdi Pétur yngri börnum sínum Atla og Þorbjörgu,  gegnum alla yngri flokka og þegar Þorbjörg fór að leika með meistaraflokki sá hann um móttöku dómara og var á vakt á sjúkrabörum á öllum heimaleikjum.  Hann er einn af upphafsmönnum göngufótbolta í Þrótti. Pétur hefur hlotið silfurmerki Þróttar fyrir störf sín.  Hann fagnaði 74 ára afmæli sínu 4.október.