Þróttari vikunnar: Halldór Bragason, 1945 – 1997.

Halldór Bragason, 1945 – 1997, hóf ungur æfingar með Þrótti, bæði í handknattleik og knattspyrnu.  Hann var mikið efni í báðum greinunum og var fljótt valinn til að leika með þeim bestu upp alla flokka.  Alls lék hann 200 leiki með meistaraflokki félagsins í knattspyrnunni og varð m.a. Reykjavíkurmeistari með flokknum 1966, þegar Þróttur vann sinn fyrsta stóra titil.  Halldór gerði enn betur í handknattleiknum en hann lék alls 297 leiki  með meistaraflokknum og er samkvæmt skrám leikjahæsti leikmaður félagsins enn þann dag í dag.  Halldór tók mikinn þátt í félagslífi Þróttar og var alltaf boðinn og búinn að taka til hendinni fyrir félagið, m.a. þegar eitthvað þurfti að prenta, en hann var prentari að iðn, og naut félagið góðs af því, því mikið var um að gefin væru út fréttablöð og leikskrár, að ekki sé talað um getraunaseðla, en Þróttur átti upphafið að endurreisn Íslenskra getrauna, með því að gefa út sína eigin seðla og vat tippað á íslenska knattspyrnuleiki til að byrja með.  Halldór lést langt fyrir aldur fram.