Þróttari vikunnar: Hildur Björg Hafstein

Hildur Björg Hafstein, 1966 -, er fædd og uppalin í Vogahverfinu.  Hún lagði stund á handbolta með Þrótti á sínum yngri árum en nú á seinni árum hefur hún skipað sér í fremstu röð sjálfboðaliða hjá félaginu. Hún myndaði á ný tengsl við félagið þegar börnin hennar og eiginmaður byrjuðu að iðka íþróttir hjá félaginu.  Tveir synir hennar, Baldur og Stefán, leika nú með meistaraflokki í knattspyrnu.  Hildur situr nú í aðalstjórn félagsins en hefur gegnt margskonar störfum í þágu félagsins, m.a. sat hún í stjórn Rey Cup í fimm ár, þar af tvö ár sem framkvæmdastjóri.  Hún hefur svo setið í mörgum foreldraráðum auk þess hefur hún tekið að sér fjölbreytt verkefni fyrir félagið s.s. í kringum heimaleiki Þróttar og fleiri.

Aðspurð um foreldrastarfið í Þrótti segir Hildur: „Þróttarforeldrar eru einstakir.  Svo stór hluti félagsins reiðir sig á framlag foreldra t.d. á VÍS mótinu og Rey Cup, sem ekki væri hægt að halda án vinnu foreldra.  Hún hvetur foreldra til að láta málefni félagsins varða, benda á það sem vel er gert og einnig það sem má bæta. „Við gerum og getum gert svo margt þannig að börnin geti sinnt sínu áhugamáli, af ástríðu í faglegu, jákvæðu og öruggu umhverfi.“

Hildur hefur hlotið silfurmerki Þróttar fyrir störf sín og merki KRR með lárviðarsveig.