Samkvæmt lögum Þróttar skal halda aðalfund félagsins eigi síðar en 25.maí ár hvert fyrir starfsárið þar á undan. Auk þess skal aðalfundur knattspyrnudeildar vera haldinn á tímabilinu 1.október til 1.nóvember ár hvert fyrir starfsárið þar á undan en aðrar deildir skulu halda aðalfundi eigi síðar en 15.maí.
Fjöldatakmarkanir og aðrar takmarkanir á samkomu – og fundahaldi vegna Covid 19 hafa augljóslega sett mark sitt á allt samfélagið undanfarna mánuði, allt frá því s.l. vetur, og af þeim sökum hefur ekki gefist tækifæri til þess að boða til aðalfundar félagsins eða aðalfunda allra deilda félagsins. Þegar mál skýrast varðandi fjöldatakmarkanir og samkomu – og fundahald á næstu vikum verður boðað til þeirra aðalfunda sem bundnir eru í lög félagsins og þá með lögbundnum fyrirvara. Sitjandi stjórnir fara því með stjórn félagsins og deilda þess í allt að 6 næstu mánuði eða þar til aðstæður gefa kost á því að aðalfundir séu haldnir og eftir atvikum nýjar stjórnir eru staðfestar.