Þróttari vikunnar: Gunnar Helgason

Gunnar Helgason1965-,sleit barnsskónum á Háaleitisbrautinni en flutti þó ungur að árum í Glaðheima og var því forðað frá því að verða Framari.  Hann lék knattspyrnu upp alla flokka félagsins en þurfti að lokum að velja milli fótboltans og listagyðjunnar. Þróttarar hafa þó notið góðs af fjölbreyttum hæfileikum Gunna.  Hann hefur stýrt ófáum skemmtikvöldunum, herrakvöldunum og/eða öðrum skemmtunum og á seinni árum hefur hann skrifað vinsælan bálk barnabókmennta þar sem Þróttur kemur mikið við sögu.

Gunni var í forystusveit með hinum líflegu Kötturum sem áttu áhorfendapalla íslenskrar knattspyrnu um langt skeið, auk þess að sitja í stjórn knattspyrnudeildar með hléum. Auk þess hefur hann verið duglegur að safna aur fyrir félagið meðal annars með hönnun og innflutningi á merkjavöru í samstarfi með bróður sínu Ásmundi.

Gunnar hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og silfurmerki KSÍ og KRR.