Sam Hewson til Þróttar!

Sam Hewson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Guðlaugs Baldurssonar hjá Þrótti en hann mun jafnframt leika með liðinu. Samningurinn er til 4 ára.

Sam Hewson er þekktur á Íslandi sem afburða knattspyrnumaður. Hann er alinn upp hjá Manchester United en fluttist til Íslands árið 2011 og hefur leikið hér á landi síðan, fyrst með Fram, svo FH, Grindavík og loks Fylki og á að baki mjög farsælan feril sem leikmaður í efstu deild á Íslandi.

Sam mun nú, auk þess að leika með Þrótti, stíga sín fyrstu skref við þjálfun í samvinnu við og undir stjórn Guðlaugs Baldurssonar en þeir félagar þekkjast vel frá því þeir unnu saman í FH á sínum tíma og lönduðu hverjum titlinum á fætur öðrum. .

Kristján Kristjánsson formaður knd. Þróttar segir:

„Það er mikill fengur í að fá  Sam Hewson til liðs við okkur en hann hefur margoft sannað snilli sína inn á vellinum og kemur nú til Þróttar sem leikmaður og aðstoðarþjálfari. Við bindum miklar vonir við Sam og samvinnu þeirra félaga.“

Sam Hewson segir: „Þetta er mjög spennandi verkefni fyrir mig, Þróttur er spennandi félag og ég hlakka til samvinnunnar við Guðlaug. Ég mun gera mitt allra besta fyrir félagið, bæði innan og utan vallar og hlakka til að vinna með ungum leikmannahópi Þróttar“

Lifi Þróttur!