Þróttari vikunnar: Magnús Dan Bárðarson

Magnús Dan Bárðarson, 1950 -,er elsti spilandi knattspyrnumaður landsins.  Hann kíkti á nokkrar æfingar hjá Þrótti á unga aldri, áður en hann ákvað að ganga til liðs við Víking Reykjavík, þar sem hann varð m.a. Bikarmeistari 1971, en gekk til liðs við Þrótt þegar hann komst á Old Boys aldurinn og þar hefur hann alið manninn síðan.  Hann hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari í flokknum með Þrótti, þ.e. 1990 og 2010, ásamt því að vinna „Lávarðaflokkinn“ tvisvar á Pollamóti Þórs á Akureyri.  Tvisvar fannst honum ekki komið nóg eftir mótið fyrir norðan og gerði sér lítið fyrir og hjólaði til baka til Reykjavíkur, þar af annað skiptið yfir hálendi Íslands.  Spurður að því hvernig hann færi að því að vera ennþá spilandi á þessum aldri, svarar hann: „það snýst um að halda vélinni alltaf í gangi og olíunni volgri, aldrei að stoppa, hjóla í vinnuna, ganga á fjöll, elska konuna o.s.frv.“  Magnús lætur þetta ekki duga heldur er hann ósjaldan mættur í sjálfboðastörf á vegum félagsins, t.d. á leikjum meistaraflokkanna.  

Magnús hefur verið sæmdur silfurmerki Þróttar og merki KRR með lárviðarsveig fyrir störf sín.  Hann ber nú titilinn „Formaður foreldrafélags Old Boys“.