Markmanns- og styrktarþjálfari ráðnir til Þróttar

Þróttarar hafa ráðið þá Jamie Brassington og Henry Szmydt til starfa sem markmanns- og styrktarþjálfara félagsins. Með þessu verða þjálfarateymi beggja meistaraflokka fullmönnuð. Þeir Jamie og Henry munu einnig annast markmanns- og styrktarþjálfun yngri flokka félagsins. 

Jamie Brassington er sérmenntaður UEFA B markamannsþjálfari frá Englandi og hefur einnig lokið BSc. gráðu í þjálfun.  Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann öðlast mikla reynslu af markmannsþjálfun í England, hér á landi og víðar, m.a. í Taiwan þar sem hann var markmanns- og aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í eitt ár. Jamie hefur áður starfað hjá Þrótti og náð mjög góðum árangri með yngri markmenn félagsins. 

Henry Szmydt er sérmenntaður styrktarþjálfari frá Englandi og hefur lokið M.Sc. gráðu á sviði styrktarþjálfunar og íþróttafræða. Hann er ungur að árum en á engu að síður að baki góðan feril sem styrktarþjálfari hjá ýmsum liðum á Bretlandi, m.a. hjá aðalliði Cheltenham, Bristol City og Nottingham Forest þar sem hann sinnti styrktarþjálfun í stúlknaflokkum samkvæmt vegvísi enska knattspyrnusambandsins fyrir upprennandi landsliðskonur. Stjórn knd. og BUR hafa sameinast um þessar ráðningar og telja þær algert lykilatriði í þróun félagsins til lengri tíma og að með þeim skapist umgjörð sem muni auka verulega möguleika félagsins til að ná árangri í framtíðinni.