Þróttur leikur í JAKO búningum næstu fjögur ár

Í dag var undirritaður samningur á milli Þróttar og Namo ehf. umboðsfyrirtækis JAKO fatnaðar um að Þróttur leiki í JAKO búningum næstu fjögur árin. 

Samningurinn nær til allra deilda félagsins og mun sala á fatnaði og öðrum búnaði til yngri flokka iðkenda hefjast nú fyrir jól en gert ráð fyrir að sérhannaður nýr keppnisbúningur verði kynntur fyrir vorið 2021.  

JAKO er framleitt í Þýskalandi en þúsundir liða í meira en 50 löndum um allan heim leika nú í JAKO búningum. Meðal þeirra má nefna þýsku úrvalsdeildarfélögin Vfb Stuttgart og Bayer Leverkusen auk margra annarra liða í efstu deildum víða um Evrópu. Þróttur mun nýta sömu vörulínu og lið Vfb Stuttgart. 

Þróttarar vænta mikils af samstarfinu Jakosport á Smiðjuvegi í Kópavogi þar sem verslun vörumerkisins er, en eigendur hennar eru kunnir af ríkri þjónustulund og mikilli þekkingu á þörfum íþróttafélaga af stærð Þróttar. 

Samningar við Namo gengu afar vel og við Þróttarar viljum bjóða Jako velkomið til samstarfs.

Á myndinni að ofan eru Kristján Kristjánsson formaður knd. Þróttar, Bjarnólfur Lárusson formaður Barna- og ungliðaráðs, Hrafnhildur Brynjólfsdóttir formaður blakdeildar Þróttar og Jóhann Guðjónsson forstjóri JAKOSports. Að auki eru þarna Þróttarabörnin Sverrir Ólafsson, Karítas Ólafsdóttir, Lárus Bjarnólfsson og Margrét Harpa Bjarnólfsdóttir. 

Lifi Þróttur!