Íþróttamaður Þróttar árið 2020 verður útnefndur í dag, gamlársdag, og verður tilkynnt um útnefninguna eftir hádegi en vegna aðstæðna verður ekki um hefðbundna athöfn að ræða í félagsheimili Þróttar líkt og undanfarin ár. Þróttari ársins verður að sama skapi útnefndur síðar í dag.
Tvær íþróttakonur eru tilnefndar til íþróttamanns Þróttar fyrir árið 2020.
Blakdeildin tilnefnir Christinu A.O. Ferreira sem íþróttamann Þróttar 2020
Christina átti frábært tímabil með meistaraflokki kvenna í blaki á síðasta tímabili. Christina er hörku leikmaður, góður liðsfélagi innan og utan vallar, alltaf tilbúin að hvetja og styðja liðsfélaga sína og átti sinn þátt í að halda góðum liðsanda. Hún er reynslumikill leikmaður og var okkur í Þrótti mjög dýrmæt þetta tímabil. Christina var valin í úrvalslið Mizunodeildarinnar fyrri hluta timabilsins og var í draumaliði Mizuno þegar deildin var blásin af. Christina var meðal stigahæstu leikmanna í deildinni og var stigahæsta miðjan auk þess að vera með besti blokkarinn og með flest stig skoruð úr blokk. Christina er góð fyrirmynd.
Knattspyrnudeild tilnefnir Álfhildi Rósu Kjartansdóttur sem íþróttamann Þróttar 2020.
Álfhildur átti ríkan þátt í að Þróttur náði 5ta sæti á Íslandsmóti kvenna árið 2020 sem er besti árangur Þróttar í efstu deild frá upphafi. Álfhildur er frábær leikmaður og fyrirliði. Hún var yngsti fyrirliðinn í PepsiMax deildinni sl. sumar og stóð sig þar mjög vel, bæði í því hlutverki og sem leikmaður. Hún er baráttujaxl og fer fyrir sínu liði í blíðu og stríðu. Álfhildur er hæversk og og heilsteypt manneskja, hefur þjálfað yngri flokka jafnhliða því að leika með meistaraflokki félagsins og er góð fyrirmynd okkar yngstu iðkendum.
Hún lék sína fyrstu leiki Í efstu deild kvenna árið 2015, aðeins fimmtán ára, en hefur síðan leikið yfir 70 leiki fyrir félagið og er nú einn leikreyndasti leikmaður meistaraflokks kvenna.