Kveðja um áramót frá formanni félagsins Finnboga Hilmarssyni

Kæru Þróttarar, 

Það er óhætt að segja að síðasta ár sé litað af veirunni sem heimsótti landið okkar og skaut hér rótum, allavega um sinn.  Veiran hefur haft víðtæk áhrif á allt starfið og umhverfi þess og gert félögum eins og okkar í Þrótti erfitt að starfa. Æfingar hafa fallið niður, keppnisleikjum aflýst, úrslitakeppnum aflýst, Íslandsmótum hætt o.s.frv. Þrátt fyrir það hefur okkur tekist að halda úti öflugu starfi, en með ýmsum annmörkum þó.  Mig langar því að hrósa fólkinu okkar, iðkendunum okkar, börnunum okkar, unglingunum okkar, foreldrunum, þjálfurunum okkar, leikmönnunum okkar, starfsfólkinu okkar, sjálfboðaliðunum okkar, styrktaraðaðilunum, stjórnunum okkar og öllum öðrum sem hafa lagt svo mikið á sig til að láta starfið okkar ganga áfram. Það hefði enginn trúað því að við ættum eftir að sjá sjálfboðaliðana okkar standa með grímur, hanska og sprittbrúsa til að gæta öryggis við framkvæmd leikja í fótboltanum og engir af okkar frábæru áhorfendum að horfa á.  Þessu fólki öllu vill ég þakka fyrir fórnfýsina og frábært starf. Okkar helsti styrkur er gríðarlega gott samfélag sem byggist uppá óeigingjörnu starfi, hvort sem það skilar sér í öflugu sjálfboðastarfi eða annarskonar framlagi. 

Fyrr í dag útnefndum við Álfhildi Rósu Kjartansdóttur sem íþróttamann Þróttar 2020. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Álfhildur Rósa þegar leikið 70 leiki fyrir félagið og er nú einn leikreyndasti leikmaður meistaraflokks kvenna. Hún lék sína fyrstu leiki Í efstu deild kvenna árið 2015, þá aðeins fimmtán ára gömul. Álfhildur er frábær fulltrúi félagsins og erum við ákaflega stolt að útnefna hana sem íþróttmann Þróttar árið 2020. 

Það er hefð fyrir því að útnefna á gamlársdag Þróttara ársins, en það er sá aðili, eða aðilar, sem þykja hafa unnið einstaklega óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf í þágu félagsins.  Fyrir valinu urðu þau heiðurshjón Anna Katrín Sveinsdóttir og Guðni Jónsson.  Þau eru traustir Þróttarar sem ávallt eru tilbúin í verkefni sem snúa að félaginu og ef þau eru ekki að sinna sjálfboðaliðastörfum þá eru þau mætt til að fylgjast vel með leikjum bæði yngri flokka og meistaraflokka auk þess að koma nánast að framkvæmd allra viðburða á okkar vegum, hvort sem það er mótahald eða annað.   

Eins og fram kom í Jólablaði Þróttar sem kom út í upphafi desember stöndum við Þróttarar nú á krossgötum. Félagið okkar stækkar jafnt og þétt, hverfið stækkar, íbúum fjölgar og iðkendum fjölgar. Á sama tíma þrengir að félaginu ár frá ári og engin leið virðist að fá botn í fyrirætlanir Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Laugardalnum. Á næstunni eru fyrirhugaðir fundir með Reykjavíkurborg, bæði um uppbyggingu nýrra gervigrasvalla á Valbjarnarsvæðinu og nýs íþróttahúss fyrir Þrótt. Í upphafi nýs árs mun skýrast í hvaða farveg okkar mál fara og mun ég upplýsa ykkur um það um leið og það liggur fyrir.

Kæru Þróttarar og allir velunnarar félagsins, ég óska ykkur öllum gleði og farsældar á nýju ári með þökk fyrir samveru og samvinnu á árinu sem nú er að ljúka. 

Finnbogi Hilmarsson,

Formaður Þróttar.