Íris Dögg Gunnarsdóttir markvörður til Þróttar

Íris Dögg Gunnarsdóttir markvörður skrifaði í dag undir samning um að leika með Þrótti út tímabilið og mun því taka sæti Friðriku Arnardóttur sem tekið hefur sér hlé frá knattspyrnuiðkun. Íris er reynslumikill markvörður og hefur leikið um 170 leiki í meistaraflokki, þar af 86 í efstu deild. Hún var síðast hjá Breiðabliki en hefur einnig leikið með Aftureldingu, Gróttu, Haukum, Fylki, FH og KR. Íris er fædd 1989, hún lék á sínum tíma leiki með yngri landsliðum Íslands og á að baki 7 leiki með U19 svo dæmi sé nefnt.

Kristján Kristjánsson formaður Knattspyrnudeildar Þróttar segir: ,,Við fögnum því að fá Írisi í okkar raðir, hún býr yfir mikill reynslu sem á eftir að nýtast okkur vel í þeim mótum sem í hönd fara. Ekki síst mun reynsla Írisar nýtast vel í Pepsi Max deildinni, enda á hún að baki yfir 80 leiki í efstu deild. Koma hennar er mikilvægur liður í undirbúningi Þróttaraliðsins fyrir átökin í efstu deild í sumar. 

Velkomin Íris!