Unnið hefur verið að því að bæta aðstöðu í og við félagsheimili Þróttar undanfarin misseri og er það unnið í samráði við Reykjavíkurborg sem er eigandi mannvirkjanna.
Ný þvottaaðstaða var tekin í notkun nú á dögunum og sannaði nýr tækjabúnaður sig rækilega um nýliðna helgi þegar Vormót Þróttar fór fram. Öflug tæki sem munu nýtast öllum deildum og er um algera byltingu að ræða sem auðveldar öll þrif á búningum og æfingafatnaði deildanna.
Þróttararnir í Stjörnublikk og HP Raf hafa komið að framkvæmdinni og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir alla aðstoðina við loftræstimál, rafmagn og fleira. Á næstu vikum er svo ætlunin að bæta ýmsa aðra aðstöðu í tengslum við félagsheimilið og velli, okkar iðkendum og félagsmönnum til góða.