Lagalisti ársins! Ný Þróttaralög

Menningarfélag Þróttar undir öruggri forystu Jóns Ólafssonar í samvinnu við Köttara og aðra velunnara hefur hljóðritað fjögur ný lög sem eru komin inn á Spotify.

Þróttur Old Boys styrkti þessa menningarstarfsemi og á sá frábæri félagsskapur miklar þakkir skildar!

Þróttur á Spotify

Lögin fjögur sem nú bætast í veglegt safn Þróttaralaga eru:

Frá Pæjumóti í Pepsí
Hildur Vala, okkar góði Köttari og tónlistarkona, benti réttilega á að það vantaði gott lag um fótboltastelpurnar í Þrótti. Halldór Gylfason gerði skemmtilegan texta og í bílskúr í Skerjafirði var búið til einfalt og grípandi rokklag. Hildur Vala leiðir sönginn en í viðlögunum syngja fjórir leikmenn mfl.kvenna í knattspyrnu hástöfum með. Það eru þær Ísabella, Álfhildur Rósa, Linda Líf og Lea Björt. Á trommum er Ólafur Hólm (Nýdönsk), Andri Ólafsson (Moses Hightower) leikur á bassann, Stefán Már Magnússon (SSSól) plokkar gítarstrengina en um upptökur og hljómborðsleik sá Jón Ólafsson.

Þróttarinn
Halldór Gylfason og Ottó Tynes frumfluttu Þróttarann í sjónvarpsþættinum „Hjartað í Reykjavík“ sem Þróttarar börðu augum á dögunum. Lagið er gamalkunnugt (Þorparinn) eftir Magnús Eiríksson en hann veitti þeim félögum góðfúslegt leyfi til að gera við það nýjan texta. Halldór syngur lagið með aðstoð Ottós í viðlögunum. Um bassaleik sér Andri Ólafsson (Moses Hightower), Stefán Már Magnússon (SSSól) leikur á gítar en Jón Ólafsson sér um trommuheilaforritun, hljómborðsleik og upptökur.

Inngöngustef 2021
Nýtt inngöngustef fyrir heimaleiki á Eimskipsvellinum var samið fyrir nokkrum vikum af Jóni Ólafssyni og til aðstoðar var fenginn fyrrum markvörður í Þrótti; Sigurgeir Sigmundsson, sem er auk þess ein helsta gítarhetja Íslandssögunnar. Hann þenur gítarinn eins og honum einum er lagið en um restina sér títtnefndur Jón Ólafsson.

My Friend The Wind
Opinber baráttusöngur Þróttar Old Boys. Í goðsagnakenndri keppnisferð Old Boys til Skotlands fyrir tveimur árum var þetta lag leikið við hin ýmsu tækifæri. Stórsöngvarinn og knattspyrnumaður í Old Boys, Böddi Reynis, syngur þetta lag á einkar geðþekkan hátt og ekki skemmir fyrir að meðlimir Old Boys taka undir í viðlögunum. Það eru þeir Ótthar S. Edvardsson, Anil Thapa, Geir Leó Guðmundsson og Kolbeinn Reginsson sem syngja af einlægni ígulkersins. Auk þeirra leikur Gudberg Konrad Jonsson á sekkjarpípu í upphafi lagsins. Ólafur Hólm trommar, Andri Ólafsson er á bassanum, Stefán Már Magnússon leikur á gítar en Jón Ólafsson ber ábyrgð á hljómborðsleik og upptökum.