Guðjón Oddsson heiðursfélagi Þróttar

Á fundi aðalstjórnar þann 18 maí sl. var einróma samþykkt að gera Guðjón Oddsson að heiðursfélaga Þróttar.

Guðjón hóf strax að iðka knattspyrnu þegar félagið var stofnað og er einn af fyrstu meisturum þess þegar Haustmeistaratitillinn vannst í 4. flokki árið 1951.  Þá lék hann upp alla flokka félagsins og varði mark félagsins í 27 leikjum í meistaraflokki.

Enginn einstaklingur hefur setið jafn lengi í stjórn Þróttar og Guðjón Oddsson, alls í 18 ár og þar af fjögur sem formaður 1971 – 1975. Hann var aðeins 18 ára gamall þegar hann var kjörinn í aðalstjórn Þróttar haustið 1957.  Guðjón starfaði með fimm formönnum og var gjaldkeri félagsins í 12 ár. Þá var hann varaformaður um tíma og einnig sat hann sem varamaður í aðalstjórn í 10 ár, bæði fyrir og eftir stjórnarsetuna.