Sjálfboðaliðar eru skemmtilegt fólk

Rey Cup er eitt glæsilegasta knattspyrnumót sem haldið er á Íslandi og í ár fögnuðum við Þróttarar 20 ára afmæli mótsins.

Mótið sem upphaflega var hugmynd metnaðarfullra Þróttaraforeldra var sérstaklega glæsilegt í ár því um 20 ára afmælismót var að ræða og hefur mótið aldrei verið stærra. Það voru 147 lið sem tóku þátt og yfir 2.000 keppendur og þjálfarar sem kepptu innbyrðis.

Mótið í ár var haldið við sérstakar aðstæður með ógn heimsfaraldurs yfirvofandi og því engin erlend lið að þessu sinni. En frábær stjórn Rey Cup stóð vaktina vel og skilaði af sér frábæru móti þar sem knattspyrnan og skemmtunin voru allsráðandi. Við Þróttarar erum afar stolt af Rey Cup og endurspeglar mótið þann metnað sem Þróttur býr yfir við uppbyggingu á góðu barna- og unglingastarfi í íþróttum.

Þetta væri ekki framkvæmanlegt nema fyrir allan þann fjölda sjálfboðaliða sem aðstoða félagið við skipulagningu og framkvæmd mótsins. Mótið er einn stærsti viðburður Þróttar á ári hverju og skipar mjög mikilvægan sess í rekstri félagsins. En um leið og keppendur halda glaðir heim með skemmtilegar minningar í farteskinu þá stendur það upp úr hversu skemmtilegt fólk sjálfboðaliðar eru og hversu gaman það er að vera í Laugardalnum á meðan Rey Cup stendur.

#Lifi Þróttur

Bjarnólfur Lárusson

Formaður Knattspyrnufélagsins Þróttur