María Edwardsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Þróttar


Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Þróttar hefur ráðið Maríu Edwardsdóttur sem framkvæmdastjóra
félagsins og mun hún taka til starfa síðar á árinu.

María mun sinna daglegum rekstri félagsins og vinna náið með íþróttastjóra, öðrum starfsmönnum og öllum deildum félagsins.

María hefur starfað hjá Gröfu og grjót ehf. undanfarið ár við endurskipulagningu fjármála og innri
ferla. Áður starfaði hún m.a. sem fjármálastjóri hjá Dive.is og Belgingi, framkvæmdastjóri
Læknastöðvarinnar og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ, vörustjóri hjá Opnum kerfum og
þjónustustjóri hjá Apple IMC.

María er uppalinn Þróttari en hún hóf starfsferil sinn sem húsvörður Þróttar árið 1994 auk þess sem
hún spilaði bæði blak og fótbolta með félaginu. Hún hefur samhliða vinnu unnið ötult
sjálfboðaliðastarf fyrir félagið í gegnum bæði barna- og unglingaráð og aðalstjórn.

„María hefur sýnt það í daglegum störfum sínum sem og störfum fyrir félagið að hún er drífandi
leiðtogi með mikla reynslu þegar kemur að rekstri fyrirtækja og fjármálum þeirra. Það er því mikill
fengur fyrir Þrótt að fá hana til starfa sem framkvæmdastjóra félagsins. Með ráðningunni tökum við
stórt og nauðsynlegt skref til að styrkja innviði félagsins“ segir Bjarnólfur Lárusson, formaður Þróttar.

María er gift Dr. Ólafi Rögnvaldssyni, veðurfræðingi, og eiga þau 5 börn og 1 barnabarn.

María mun við ráðninguna hætta í aðalstjórn félagsins og mun Jóhanna Klara Stefánsdóttir taka
hennar sæti.