Ian Jeffs ráðinn þjálfari Þróttar

Ian Jeffs

Ian David Jeffs hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Þróttar í Reykjavík til næstu 3 ára. Skrifað var undir samning þess efnis í dag.

Ian Jeffs er margreyndur þjálfari og leikmaður, hann hefur þjálfað bæði meistaraflokk karla og kvenna í efstu deild í Vestmannaeyjum og verið aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins. Jeffs hefur að auki leikið yfir 270 leiki í meistaraflokki á Íslandi frá því hann kom fyrst til landsins frá Englandi árið 2003.

Þróttarar vænta mikils af Ian Jeffs næstu árin, hann mun leiða uppbyggingu karlaliðs félagsins sem nú leikur í 2. deild og huga sérstaklega að þeim mikla efnivið sem í félaginu býr.

Þróttarar bjóða Ian David Jeffs hjartanlega velkominn í Laugardalinn.