Stelpurnar hækkuðu rána

Pistill formanns

Þróttur er stórt félag það sáum við svo sannarlega á áhorfendapöllunum á Laugardalsvelli þegar Þróttur spilaði sinn fyrsta bikarúrslitaleik í sögu félagsins. Það er mikil vinna sem er að baki þegar félag nær slíkum árangri og hafa allir sjálfboðaliðar félagsins unnið kraftmikið og óeigingjarnt starf á árinu, fyrir það megið þið eiga miklar þakkir fyrir vel unnin störf.

Umgjörð meistaraflokka félagsins í knattspyrnu var mjög góð á árinu þó að gengi liðanna hafi verið misjafnt á tímabilinu og sú stefna að jafna hluta karla og kvenna sem knattspyrnudeildin hefur unnið að undanfarin ár hefur svo sannarlega skilað sér innan sem utan vallar.

Í barna- og unglingastarfi félagsins eru um 750 iðkendur og mikið starf sem þarf að vinna svo allt gangi vel. Því til viðbótar höldum við Þróttarar tvö af stærstu knattspyrnumótum landsins, ReyCup og Vormót Þróttar, sem heppnuðustu einstaklega vel við krefjandi Covid aðstæður og væri það ómögulegt að gera nema með þátttöku þeirra yfir 100 sjálfboðaliða sem gerðu mótin að veruleika.

Eftir erfiðleika meistaraflokks karla undanfarin þrjú ár gerðist það í sumar að liðið féll niður í 2. deild karla sem var okkur öllum mikil vonbrigði og ljóst að við Þróttarar þurfum að líta inn á við til að efla stöðu okkar til framtíðar. Liðið var óheppið með meiðsli í sumar en fall félagsins á sér langan aðdraganda og munum við þurfa sameiginlegt átak okkar allra til að snúa við þessari neikvæðu þróun liðsins. Mikið af ungum Þrótturum fengu tækifæri í sumar sem mun reynast þeim dýrmæt reynsla á næsta ári. Ráðning Ian Jeffs er mjög jákvætt skref og hef ég mikla trú á að aðkoma hans að félaginu eigi eftir að reynast okkur vel. Ian Jeffs er mikil félagsmaður sem á eftir að passa vel við þá framtíðarsýn félagsins að uppbygging meistaraflokka grundvallast á okkar iðkendum. Ég er þess fullviss að ungu strákarnir okkar munu skila okkur aftur upp í 1. deild næsta sumar.  

Árangur meistaraflokks kvenna var eftirtektarverður á árinu og sérstaklega í því ljósi að þær hafa ferðast mjög hratt upp stigatöfluna á undanförnum árum. Bikarúrslitaleikur Mjólkurbikarsins á móti Breiðablik var stærsti knattspyrnuleikur í sögu Þróttar. Leikurinn var í kjölfar þess að stelpurnar höfðu náð besta árangri í deildarkeppni sem nokkur annar meistaraflokkur Þróttar hefur náð þegar þær tryggðu sér 3. sætið í Pepsi Max deildinni. Það er því nokkuð ljóst að hér er á ferð besta knattspyrnulið í sögu Þróttar sem hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með í sumar.  Stelpurnar hafa hækkað ránna hjá félaginu og eru svo sannarlega frábærar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur félagsins.

Það hyllir undir betri aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun hjá félaginu en útboð vegna vallarlýsingar og vegna jarðvegsvinnu er farin af stað og síðasta útboðið á gervigrasinu sjálfu fer svo fram síðar í vetur. Áætlað er að vellirnir verði tilbúnir um miðjan maí á næsta ári. Það er erfitt að lýsa þeirra breytingu sem mun verða á allri aðstöðu með tilkomu nýju gervigrasvallanna en eitt er víst að það verður mikilvægt skref til að koma Þrótti í fremstu röð.

Aðstöðuleysi annarra íþróttagreina Þróttar er mjög alvarleg og staða blakdeildar vegna aðstöðuleysis og lokun Laugardalshallar þýðir að deildin verður af tekjum vegna keppnismóta sem deildin heldur til fjáröflunar. Æfingar blakdeildar verða dreifðar á 10 staði fyrir utan félagssvæðis Þróttar sem er óboðlegt og reynir mikið á rekstur deildarinnar við slíkar aðstæður. Sama er svo hægt að segja um handboltadeild félagsins sem sárlega þarf á öflugu fólki að halda til að sjá um deildina og hefur aðstöðuleysið í Laugardalnum reynst deildinni erfitt. Það er því mikilvægt að þær viðræður sem eru nú í gangi við Reykjavíkurborg um nýtt íþróttahús í Laugardalnum takist vel til en vinnuhópur frá öllum hagaðilum á að skila tillögum um framtíðaruppbyggingu á félagssvæðinu fyrir 1. desember næstkomandi.  

Unnið hefur verið hörðum höndum að því að styrkja innviði og fjármál félagsins. Ráðning Maríu Edwardsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins var því mikið fagnaðarefni fyrir félagið og mun hún formlega hefja störf í byrjun desember. Þá hefur verið gerður samningur við Gunnhildi Ásmundsdóttur um að hún verði framkvæmdastjóri Reycup og Vormóts Þróttar til næstu þriggja ára.

Það eru mjög spennandi tímar framundan hjá okkur Þrótturum en þeir munu ekki koma án áskoranna og því er mikilvægt að allar taki þátt í þeirri uppbyggingu sem framundan er í félaginu. Mikilvægasti og verðmætasti þátturinn í slíkri starfsemi eru allir sjálfboðaliðar félagsins og vil ég hvetja ykkur öll sem hafið smá tíma aflögu að vera þátttakendur í uppbyggingu félagsins.

Bjarnólfur Lárusson

Formaður Þróttar