Freyja Karín Þorvarðardóttir hefur gengið liðs við Þrótt og skrifar undir 2ja ára samning við félagið.
Freyja Karín er fædd árið 2004, hún er með efnilegri sóknarmönnum landsins og hefur undanfarin ár leikið með Fjarðabyggð í 2. deild. Þar hefur hún leikið 37 leiki í öllum keppnum og skorað 40 mörk. Freyja var valinn í u19 ára landsliðið í sumar og hún var af þjálfurum liða í 2. deild kvenna kjörin bæði besti og efnilegasti leikmaður deildarinnar á síðastliðnu tímabili.
,,Þjálfarar Þróttar hafa fylgst með Freyju í langan tíma og við Þróttarar erum geysilega ánægð með að Freyja skuli kjósa að stíga næsta skref á sínum ferli með Þrótti“ segir Kristján Kristjánsson formaður knd. Þróttar. ,,Freyja er einstaklega spennandi leikmaður með mikla hæfileika og mikinn metnað og hún fellur mjög vel að okkar hugmyndum um uppbyggingu félagsins. Við hlökkum til að vinna með henni á komandi árum.“