Íris Dögg Gunnarsdóttir er Íþróttamaður Þróttar 2021

Íris Dögg Gunnarsdóttir markvörður Þróttar í meistaraflokki kvenna var í dag kjörinn Íþróttamaður ársins hjá félaginu. Tvær konur voru tilefndar, auk Írisar var það Katrín Sara Reyes, fyrirliði blakliðs Þróttar.  

Íris Dögg er vel að þessari nafnbót komin. Hún lék alla leiki liðsins í sumar, bæði í deild og bikar og átti mjög gott tímabil með liði sem náði besta árangri sem knattspyrnulið á vegum Þróttar hefur náð í sögunni.  

Í rökstuðningi stjórnar knd. segir m.a. að Íris sé góður markvörður og íþróttamaður, hún æfi alltaf vel, sé allt í senn samviskusöm, metnaðarfull, skynsöm og yfirveguð. Hún sé brosmild og jákvæð en um leið ákveðin og kappsöm. 

Íris leggur sig alltaf fram, bæði á æfingum og í leikjum og viðhorf hennar til knattspyrnunnar er öðrum fyrirmynd. 

Íris Dögg Gunnarsdóttir hefur verið ungu liði Þróttar nauðsynleg kjölfesta, hún færir því reynslu og þroska sem reynst hefur bæði mikilvægt og afgerandi. 

Íris gat ekki verið viðstödd athöfn á vegum félagsins í dag þar sem hún er í einangrun vegna kóvídsmits í fjölskyldunni. Því fylgir hér mynd af henni fagna leikslokum í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Mumma Lú ljósmyndara er þökkuð myndatakan.

Þróttarar óska Írisi innilega til hamingju með þessa vegsemd.