Íþróttamaður Þróttar útnefndur í dag, 30.desember

Íþróttamaður Þróttar árið 2021 verður útnefndur í dag, fimmtudaginn 30.desember, og verður tilkynnt um útnefninguna síðar í dag en vegna aðstæðna verður ekki um hefðbundna athöfn að ræða í félagsheimili Þróttar líkt og verið hefur undanfarin ár. 

Þróttari ársins 2021 verður að sama skapi útnefndur síðar í dag.

Tvær íþróttakonur eru tilnefndar til íþróttamanns Þróttar fyrir árið 2021.

Blakdeild Þróttar tilnefnir Katrínu Söru Reyes til Íþróttamanns Þróttar árið 2021 og velur hana blakara ársins. 

Katrín Sara leikur með meistaraflokki Þróttar í blaki og er fyrirliði liðsins.

Katrín Sara iðkar íþrótt sína af metnaði og samviskusemi. Hún hefur hvatt lið sitt í gegnum erfiðan tíma, sem er ekki bara litaður sóttvarnarráðstöfunum, heldur einnig flakki liðsins á milli æfingarhúsnæðis út um allan bæ, nú þegar Laugardalshöllin er lokuð.  Við þessar aðstæður hefur Katrín sýnt fádæma þrautsegju og stigið upp, ekki bara sem leikmaður heldur einnig sem félagi sem ber hag liðsins fyrir brjósti, innan vallar sem utan. 

Katrín Sara er sannur fyrirliði, góð fyrirmynd, vinnusöm fyrir deildina og hörku leikmaður. Við í blakdeildinni erum bæði stolt og þakklát fyrir að hafa Katrínu í okkar liði.

Knattspyrnudeild Þróttar tilnefnir Írisi Dögg Gunnarsdóttur til íþróttamanns Þróttari árið 2021 og velur hana knattspyrnumann félagsins á árinu.

Stjórn knattspyrnudeildar er einhuga um að Íris Dögg Gunnarsdóttir, markvörður, verðskuldi nafnbótina Knattspyrnumaður Þróttar á á árinu 2021. Íris gekk til liðs við Þrótt fyrir síðasta tímabil en þrátt fyrir að hafa verið stutt í félaginu þá hefur hún þegar sýnt mikilvægi sitt fyrir bæði mfl. lið kvenna í Þrótti sem og félagið í heild sinni.

Hún er góður markvörður og íþróttamaður, æfir vel, er allt í senn samviskusöm, metnaðarfull, skynsöm og yfirveguð. Hún er brosmild og jákvæð en um leið ákveðin og kappsöm.

Íris leggur sig alltaf fram, bæði á æfingum og í leikjum og viðhorf hennar til knattspyrnunnar er öðrum fyrirmynd.

Hún er ungu liði nauðsynleg kjölfesta, hún færir því reynslu og þroska sem reynst hefur bæði mikilvægt og afgerandi.

Íris átti stóran þátt í því að lið Þróttar náði 3. sæti á Íslandsmótinu í knattspyrnu – besta árangri sögunnar – og ekki síður því að liðið náði alla leið í bikarúrslit.

Þróttur óskar Katrínu og Írisi innilega til hamingju.