Áramótaávarp formanns – “Kæru verktakar” taka völdin í Laugardalnum

Eftir áralanga þrautargöngu okkar Þróttara til að öðlast íþróttaaðstöðu til samræmis við önnur íþróttarfélög á landinu hafa “kæru verktakar” tekið völdin í Laugardalnum og lagt vegatálma fyrir börn og unglinga hverfisins. Börn og unglingar í Laugardalnum fá ekki að njóta eðlilegra réttinda til samanburðar við önnur börn á Íslandi vegna þess verktakastríðs sem í gangi er og afleiðingarnar eru þær að öll útboð sem haldin eru til uppbyggingar aðstöðu Þróttar eru kærð og stöðvuð. Ráðaleysi Reykjavíkurborgar gegn þessum taktísku útspilum “kæru verktakanna” virðist vera algjört.

Útboð vegna endurbóta Laugardalshallar er sífellt kært svo að börn og unglingar sem stunda inniíþróttir s.s. blak og handbolta hafa nær enga möguleika til að stunda sína íþrótt. Sömu sögu er að segja af útboði vegna uppbyggingu Valbjarnarvallar sem átti að vera hafin fyrir mánuðum síðan, þar koma kærur í veg fyrir uppbygginu á knattspyrnuaðstöðu rúmlega 700 barna á aldrinum frá 4 – 19 ára. Þetta geta “kæru verktakarnir” stundað með því að greiða lítinn 150 þúsund kall í kærugjald. Ég vil því biðla til þeirra sem stýra fyrirtækjunum um að láta af þessum ósið. Ég bið ykkur um að taka okkur Þróttara til fyrirmyndar þegar kemur að ósigrum. Við höfum oft þurft að lúta í lægra haldi fyrir andstæðingum okkar og sætt okkur við ósigurinn en um leið einbeitt okkar að því að koma sterkari til leiks næst. Munið að þið eruð ekki einir sem tapið heldur heilt samfélag í núverandi ástandi.

Það er mikið gleðiefni að að hefja nýtt ár með þeim fréttum að stöðvun framkvæmda við Valbjarnasvæði hefur verið aflétt og framkvæmdir þar geta því loks hafist.

Fjárhagslegt sjálfstæði er grunnurinn að allri uppbyggingu Þróttar til framtíðar. Mikil áhersla hefur því verið lögð á að rétta við fjármál félagsins á yfirstandandi ári og hefur það skilað góðum árangri. Meginhluti þeirra opinbera skulda sem stóðu í um þremur tugum milljónum um síðustu áramót hafa verið greiddar og verða að fullu uppgreiddar á fyrri helmingi komandi árs. Þessi áfangi mun létta þungum byrðum af rekstri félagsins og ábyrgð þeirra sjálfboðaliða sem hann hvílir á. Aðalstjórn félagsins samþykkti svo undir lok þessa árs að unnið verði markvisst að því að tvöfalda tekjur allra deilda félagsins á næstu fimm árum til að styðja við nauðsynlega uppbyggingu. 

Á komandi ári verður farið í breytingar á starfsmannaaðstöðu félagsins innanhúss og breytingar fyrir iðkendur til að efla félagsandann í félagsheimili okkar. Á teikniborðinu er að stofna rafíþróttadeild Þróttar sem mun vonandi hefja starfsemi sína á fyrri hluta ársins og hún verður til að efla og auka enn frekar þjónustu félagsins við hverfið.

Við Þróttarar tökum þjónustuhlutverk okkar við hverfið alvarlega og viljum sjá til þess að börn og unglingar geti í öruggu umhverfi eflt líkamlegan og sálrænan þroska á sínum uppvaxtarárum. Því treystum við á að Reykjavíkurborg taki rétta ákvörðun nú á nýju ári með því að samþykkja sameiginlega umsókn Þróttar og Ármanns um að þjónusta Voga- og Höfðabyggðina. Með þeirri samþykkt gefst Reykjavíkurborg einstakt tækifæri til að endurskipuleggja aðstöðu beggja félaga í Laugardalnum og í  Voga- og Höfðabyggð. Ljúka þarf byggingu íþróttahúss fyrir Þrótt og bæta verulega aðstöðu Ármanns. Laugardalshöllin ætti svo að ganga í endurnýjun lífdaga með því að þjónusta hverfið og félögin í hverfinu, ellegar mun Laugardalshöllin lenda í tilvistarkreppu þegar ný þjóðarhöll mun rísa.

Það er okkar stefna að börn og unglingar sem alast upp í Þrótti fái tækifæri til að spila með okkar meistarflokkum þegar þau hafa til þess aldur. En um leið viljum við að þeir Þróttarar sem ekki ná alla leið upp í meistaraflokk hafi vettvang og aðstöðu innan félagsins til að sinna sinni íþrótt.

Stærsta auðlind félagsins eru sjálfboðaliðar og foreldrasamfélagið. Til að þess auðlindin verði fullnýtt þurfa skipulag og ferlar að vera góðir svo að félagið verði aðgengilegt öllum þeim fjölda sem vill vinna gott starf fyrir Þrótt. Mikil áhersla verður lögð á það á komandi ári að byggja upp og styrkja þessa innviði.  Sigurður Már Jóhannesson, Þróttari ársins, hefur sýnt okkur hversu mikilvægir öflugir foreldrar eru þegar móta skal umgjörð um rekstur yngri flokkanna. Sigurður vinnur alltaf fyrir heildina og hefur með fórnfýsi sinni gert foreldrum og þjálfurum öll verkefni mun auðveldari með frábærri skipulagningu. Diddi er fyrirmynd foreldra sem vilja styðja börnin sín í tómstundum auk þess sem hann er ávallt til staðar þegar félagið þarfnast hans. Í honum slær sannkallað blóðheitt Þróttarahjarta. 

Árangur meistaraflokks kvenna var eftirtektarverður á árinu og bikarúrslitaleikur Mjólkurbikarsins gegn Breiðablik er stærsti knattspyrnuleikur í sögu Þróttar. Leikurinn var háður í kjölfar þess að stelpurnar höfðu náð besta árangri sem nokkur meistaraflokkur Þróttar hefur náð með því að tryggja sér 3. sætið í Pepsi Max deildinni. Stelpurnar hafa hækkað ránna hjá félaginu og eru svo sannarlega frábærar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur félagsins. Um leið er ég mjög spenntur fyrir þeirri vegferð sem framundan er hjá meistaraflokki karla í knattspyrnu, nú þegar liðið er skipað okkar ungu strákum og gaman verður að sjá liðið komast aftur á sigurbraut þegar það hefur leik í 2. deild í sumar.

Aðstöðuleysi allra íþróttagreina Þróttar er mjög alvarlegt og staða blakdeildar vegna lokunar Laugardalshallar þýðir að deildin æfir á 6 stöðum utan félagssvæðis Þróttar sem er óboðlegt og reynir mikið á félagið. Það er því ómetanlegt fyrir Þrótt að eiga leikmenn eins og Katrínu Söru, fyrirliða blakliðsins, sem hefur hvatt lið sitt í gegnum erfiða tíma. Við þessar aðstæður hefur Katrín sýnt fádæma þrautsegju og stigið upp, ekki bara sem leikmaður heldur einnig sem félagsmaður sem ber hag liðsins fyrir brjósti, innan vallar sem utan. Einnig hafa Hrafnhildur formaður deildarinnar og meðstjórnendur unnið þrekvirki við að halda deildinni saman á þessum erfiðu tímum.

Aðalstjórn félagsins ákvað nú í desember að fenginni tillögu frá sögu – og minjanefnd félagsins að gera Magnús Vignir Pétursson knattspyrnudómara að heiðurfélaga Þróttar á 89 ára afmælisdegi hans og fjórum aðilum gullmerki Þróttar nú gamlársdag.  Allir þessir aðilar koma úr tennisdeild félagsins sem stofnuð var í júní 1989.  Þau hjónin Guðný Eiríksdóttir og Atli Arason fyrsti formaður Tennisdeildar Þróttar voru sæmd gullmerki félagsins. Einnig voru þeir Indriði H. Þorláksson, formaður tennisdeildar í 20 ár sem er lengsta seta deildarformanns í sögu félagsins, og Bragi Leifur Hauksson sem lengst af hefur setið í stjórn tennisdeildar Þróttar og verið í stjórn Tennissambands Íslands, einnig sæmdir gullmerki Þróttar. Það hyllir vonandi undir betri aðstöðu tennisdeildarinnar á næstu árum þegar uppbygging hefst á nýrri tennisaðstöðu við TBR húsið í framhald af því að Þróttur afhendir Reykjavíkurborg svæðið við TBR sem nú er knattspyrnuvöllur. 

Á þessum tímamótum vil ég þakka þeim Elísubetu, Maríu og Ólafi sem hafa svo unnið frábært starf fyrir barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar á undanförnum árum  fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf í stjórn BUR síðastliðin þrjú ár. Sérstakar þakkir vil ég einnig færa stjórnarmönnum knattspyrnu-,  blak- og tennisdeildar fyrir það óeigingjarna starf sem þeir hafa unnið fyrir félagið á árinu og öllum öðrum sjálfboðaliðum félagsins. Þeir eru ekki síst mikilvægir þegar við höldum tvö af stærstu og glæsilegustu knattspyrnumótum landsins þar sem hundruð sjálfboðaliða vinna einstakt verk. 

Árið sem senn er að líða hefur verið viðburðaríkt hjá Þrótti. Ég er fullur tilhlökkunar til að mæta komandi áskorunum félagsins með ykkur og mjög bjartsýnn á að árið 2022 verði okkur farsælt.

Kveðja,

Bjarnólfur Lárusson

Formaður Þróttar