Heiðurs- og gullfélagar

Aðalstjórn félagsins ákvað nú í desember að fenginni tillögu frá sögu – og minjanefnd að veita eftirfarandi Þrótturum gullmerki félagsins og gera Magnús Pétursson að heiðursfélaga. Viðurkenningarnar voru afhentar á gamlársdag við hátíðlega athöfn í félagsheimilinu.

Atli Arason varð fyrsti formaður Tennisdeildar Þróttar þegar hún var stofnuð í júní 1989.  Fyrsta verkefni stjórnar hans var að koma upp aðstöðu fyrir félagana og var ákveðið að byggja hana upp við suðurenda malarvallarins í Sæviðasundinu, en þar var hægt að koma fyrir þremur tennisvöllum ásamt æfingaaðstöðu.  Voru vellirnir tilbúnir 8.júlí og voru þeir á þeim tíma bestu tennisvellir landsins, sem voru síðan vígðir formlega í ágúst sama ár.  Þróttar tóku þátt í Íslandsmótinu strax á fyrsta ári og unnu til átta verðlauna, þar af einn Íslandsmeistaratitil.  Félagar voru orðnir 160 talsins þegar þarna var komið en stofnfélagarnir voru 50.  Takmark stjórnar Atla var að gera deildina að þeirri öflugustu og sigursælustu á landinu og er óhætt að segja að það takmark hafi náðst á þeim fimm árum sem Atli var við stjórnvölinn því félagar deildarinnar unnu til tuga verðlauna á þeim mótum sem þeir tóku þátt í, þ.m.t. fjölda Íslandsmeistaratitla.  Atli lét af formennsku deildarinnar 1994, eftir að hafa skilað góðu dagsverki. 

Bragi Leifur Hauksson kynntist tennisleik á háskólaárum sínum og hóf að spila hjá Þrótti á völlunum við Sæviðarsund. Áhugi hans og ósérhlífni leiddi hann til forystu í þeim hópi sem þá íþrótt stunduðu og hefur hann lengst af setið í stjórn tennisdeildar Þróttar og verið í stjórn Tennissambands Íslands. Hjá Þrótti hefur hann m.a. tekið þátt í stefnumótunarvinnu félagsins og baráttu fyrir bættri aðstöðu fyrir tennis hjá félaginu og í borginni.  Bragi er með ódrepandi áhuga á tennis og ætíð reiðubúinn til starfa. Hann leiðir þann hóp félaga sem sjá um völlinn og viðhald hans og mæta árlega vor og haust til að setja upp og taka niður vindhlífarnar sem skýla völlunum fyrir napri norðanáttinn í Laugardalnum.  Þess er einnig að geta að Bragi er margæðingur mikill og listakokkur sem kitlar á stundum bragðlauka vina sinna.

Guðný Eiríksdóttir var einn ötulasti talsmaður fyrir stofnun Tennisdeildar Þróttar og var það ekki síst að þakka áhuga og dugnaði hennar að deildin komst á laggirnar árið 1989. , Guðný varð þriðji formaður deildarinnar 1996, á eftir þeim Atla Arasyni, eiginmanni sínum og Sveini Arasyni, mági sínum. Guðný var sigursæl á tennisvellinum og er einn af aðeins átta leikmönnum sem hafa náð þremur titlum á sama Íslandsmótinu, en það gerði hún 1985 þegar hún sigraði í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik.  Má segja að öll fjölskyldan hafi verið á kafi í tennisinum því tvö börn Guðnýjar voru mjög sigursæl og voru m.a. kjörin „Tennismaður Þróttar“, þau Eiríkur Sverrir Önundarson, sem var fyrstur til að hljóta sæmdarheitið árið 1990 og Katrín Atladóttir sem kjörin var 1992. Guðný hefur verið sæmd silfurmerki Þróttar fyrir störf sín.

Indriði H. Þorláksson ákvað ungur að gera tennisíþróttina að sinni íþrótt en hafði áður stundað knattspyrnu og körfubolta. Fátt var um tennisvelli í Reykjavík en árið 1989 var tennisdeild Þróttar stofnuð og komið var upp aðstöðu við enda malarvallarins inni við Sæviðarsund. Indriði hóf þá að venja komu sína þangað og mynduðust sterk bönd með tennisfrumkvöðlunum í Þrótti, bönd sem enn halda. Árið 2001 tók Indriði svo við forystu deildarinnar, en um svipað leyti flutti tennisdeildin, líkt og aðrar deildir félagsins niður í Laugardal. Indriði var formaður tennisdeildar í 20 ár sem er lengsta seta deildarformanns í sögu félagsins.

Heiðursfélagi Þróttar

Magnús Vignir Pétursson, 1932 – , var aðeins á sautjánda árinu þegar Þróttur var stofnaður og var einn af stofnfélögunum. Hann hóf strax þátttöku í handknattleik og knattspyrnu, auk þess að vera einn af forvígismönnum að skákæfingum í félaginu og þegar stofnuð var bridgedeild var hann kosinn formaður hennar strax á þriðja ári hennar og gegndi þeirri stöðu í tvö ár. Þetta dugði honum ekki og var hann fljótlega farinn að þjálfa yngri flokka félagsins.
Árið 1950 tók hann dómarapróf í knattspyrnunni og tók það starf föstum tökum og náði langt, varð landsdómari 1956 og alþjóðlegur FIFA-dómari 1965. Hann starfaði í um 30 ár og dæmdi víða um lönd. Magnús dæmdi einnig í handknattleik og var þar í fremstu röð og með alþjóðleg réttindi. Hann var að auki innflytjandi íþróttavöru og naut félagið góðs af því um árabil því hann var ósínkur á stuðninginn við það.
Maggi Pé, eins og flestir þekkja hann betur, á afmæli dag – fagnar 89 ára afmæli sínu.