Hverfisfélögin í Laugardal, Ármann og Þróttur, fagna ákvörðun stjórnar ÍTR frá 24. janúar um að félögin skipti með sér Vogabyggð í anda þeirra tillagna sem félögin gerðu um uppbyggingu íþróttastarfs í þessum nýjustu hverfum Reykjavíkurborgar.
Um leið skora félögin á borgina að kljúfa ekki Höfðabyggð frá Vogabyggð eins og einhverjar hugmyndir hafa verið um. Félögin hafa lýst sig reiðubúin að þjóna íbúum þessara nýju hverfa og telja ekki rétt að kljúfa fyrirhugaða byggð upp á Ártúnshöfðanum norðanverðum frá Vogabyggðinni sem umlykur ósa Elliðaárinnar og Vogana.
Bæði félögin, Þróttur og Ármann, hafa beðið áratugi eftir að fyrirheit um eðlilega uppbyggingu félaganna gangi eftir í Laugardalnum og nú hyllir undir breytingar á aðstöðu fyrir íbúa í Laugardal sem hafa til þessa verið í gíslingu átaka borgar og ríkis um uppbyggingu þjóðarleikvanga.
Í kjölfar fundar sem bæði félög hafa átt með borgarstjóra á síðustu dögum vilja félögin þó lýsa yfir sérstökum áhyggjum af því að enn á ný skuli vera kynntar hugmyndir þar sem megináhersla er lögð á uppbyggingu þjóðarhallar en ekki aðstöðu fyrir íbúana í hverfinu. Að mati félaganna ganga þessar hugmyndir þvert á anda þess samtals sem átt hefur sér stað undanfarin ár við Reykjavíkurborg og sömuleiðis þvert á yfirlýsingar borgarinnar, um að setja skuli uppbyggingu fyrir börn og unglinga í forgang þegar kemur að úthlutun fjármuna til íþróttastarfs.
Félögin lýsa því yfir líkt og þau hafa gert margsinnis áður að samnýting þjóðarhallar með sérsamböndum og ýmis konar annarri starfsemi er fullreynd og þau munu ekki sætta sig við að slíku samkrulli verði haldið áfram.