Yfirlýsing stjórnar knd. vegna formannskjörs KSÍ

Góðir Þróttarar.

Stjórn knd. hefur tekið ákvörðun um að styðja formannsframboð Vöndu Sigurgeirsdóttur á Ársþingi KSÍ 26. febrúar.

Við tókum þessa ákvörðun að vel athuguðu máli og teljum hana rétta.

Vanda hefur haft skamman tíma til að koma sínum málum fram og það er sanngjarnt að hún fái eðlilegt svigrúm til þess. Á hennar vegum hefur engu að síður verið unnið kappsamlega í höfuðstöðvum sambandsins að því að móta framtíðina með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Þannig teljum við að rétt sé að vinna og að sambandið þurfi að huga jafnt að konum og körlum, strákum og stelpum, ungum sem öldnum, höfuðborgarsvæði og landsbyggð, grasrót og afreksstarfi.

Við höfum sent Vöndu bréf og skorað á hana – nái hún kjöri – að auka samtal við félögin, að beita sér með félögum í samvinnu við sveitarfélög að uppbyggingu mannvirkja sem skiptir Þrótt miklu, að nýta styrk sambandsins til að miðla þekkingu og að styrkja Knattspyrnusambandið sem sameiginlegan vettvang allra knattspyrnufélaga í landinu. Við höfum hvatt hana til að standa við allar ákvarðanir sambandsins, þó einhverjar séu erfiðar, og verja þær af fullum krafti opinberlega sé eftir því leitað.

Síðast en ekki síst þekkjum við Vöndu vel héðan úr hverfinu og úr Þrótti. Við treystum því að hún geti horft vítt yfir sviðið og fært íslenska knattspyrnu áfram, bætt árangur en líka stuðlað að umhverfi þar sem öllum iðkendum líður vel. Þetta tvennt verður ekki aðskilið að okkar mati. Kjör Vöndu sendir líka skýr skilaboð um að formenn geti komið víðar að en verið hefur og að konur eigi greiða leið að forystu Knattspyrnusambands Íslands, rétt eins og karlar hafa átt í marga, marga áratugi.

Við styðjum hins vegar Vöndu ekki af því að hún er ekki karl, heldur vegna þess að við teljum að hún geti stýrt KSÍ farsællega næstu tvö árin.

Stjórn knattspyrnudeildar Þróttar.