Yfirlýsing frá aðalstjórn – Þróttur hafnar áætlunum borgarstjóra í Laugardal

Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Þróttar hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

-Uppbygging Þjóðarhallar verði ekki á kostnað barna og unglinga í hverfinu-

Þann 24. mars 2021 undirrituðu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og fulltrúar íþróttafélaganna í Laugardal sameiginlega viljayfirlýsingu um uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir börn og ungmenni í Laugardal.

Þar segir meðal annars að aðilar séu „sammála um að lokið verði við þarfagreiningu vegna nýs íþróttahúss fyrir félögin og að strax hefjist undirbúningur við gerð nýs deiliskipulags byggt á hugmyndum félaganna um íþróttamannvirki í Laugardal“.

Það kom því fulltrúum íþróttafélaganna í Laugardal verulega á óvart að sjá tillögur borgarstjóra nýverið um uppbyggingu íþróttamannvirkja í dalnum þar sem bygging þjóðarhallar er fyrsti kostur en horfið frá byggingu íþróttahúss fyrir íþróttafélög og skóla sem þjóna eiga börnum og unglingum. Þessar tillögur ganga þvert gegn áherslu fyrrnefndrar viljayfirlýsingar og taka með engu móti tillit til brýnnar þarfar á nýju íþróttahúsi í hverfinu. Óhætt er að fullyrða að þessar nýju tillögur séu í andstöðu við skýran vilja íbúa hverfisins og geri samráð og samstarf fulltrúa borgarinnar og íþróttafélaganna undanfarin mörg ár að engu.

Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Þróttar kemur því hér með skýrt á framfæri að uppbygging íþróttahúss fyrir hverfið og íþróttafélög þess, þar sem börn og unglingar hafa forgang að allri aðstöðu og æfingatíma, er forsenda þeirrar uppbyggingar sem ríki og borg áforma í Laugardal, enda eru þær framkvæmdir að hluta háðar tilfærslum á svæðum Knattspyrnufélagsins Þróttar. 

Á meðan ekki er staðið við margrædd áform um uppbyggingu fyrir félögin, eins og þau birtast meðal annars og ekki síst í forgangsröðun borgarinnar sjálfrar um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjavík, telur aðalstjórn Þróttar að sá hluti viljayfirlýsingarinnar sem fjallar um byggingu íþróttahúss og vísað er til hér að ofan sé fallin um sjálfan sig, enda hafi borgin ekki staðið við nein þau tímamörk sem í yfirlýsingunni voru tilgreind. 

Það er ófrávíkjanleg forsenda þess að Knattspyrnufélagið Þróttur samþykki að láta frá sér svæði sem félagið hefur til umráða, samkvæmt upprunalegu samkomulagi við Reykjavíkurborg frá 1996, þar sem fram kemur að félagið hafi endurgjaldslaus afnot af tilgreindri aðstöðu og mannvirkjum svo lengi sem félagið starfar í Laugardalnum, að staðið verði að öllu leyti við áform um uppbyggingu íþróttahúss og annarra íþróttamannvirkja þar sem börn og unglingar hafa forgang að allri aðstöðu og æfingatíma. Þá er sérstaklega minnt á að afgirt svæði á milli gervigrasvallar og Skautasvells, oft nefnt Þríhyrningur, og nýtist fyrir allra yngstu iðkendur, hefur ekki verið og verður ekki til umræðu í neinum skiptum borgarinnar og Þróttar. Það svæði hefur Þróttur til afnota samkvæmt ofangreindum samningi og mun ekki láta af hendi.

Þegar litið er til þeirrar uppbyggingar sem borgin hefur staðið fyrir, ýmist nú þegar eða skuldbundið sig til, er mismununin þegar kemur að aðstöðu íþróttafélaga í Reykjavík hrópandi. Knattspyrnufélagið Þróttur hefur beðið í 70 ár eftir eigin íþróttahúsi og hefur undangengin 25 ár mátt þola að vera smám saman bolað út úr Laugardalshöll, sem átti að heita heimili félagsins fyrir innanhússíþróttir. Á sama tíma hafa félög í Reykjavík sum hver haft fleiri en eitt hús til afnota, sem annað hvort hafa verið byggð nýlega eða borgin hefur skuldbundið sig til að byggja á næstu misserum. Aðalstjórn Þróttar ítrekar enn og aftur þá afstöðu félagsins að samnýting með sérsamböndum og viðburðahöll sé fullreynd, enda hefur það verið sameiginlegur skilningur félagsins og embættismanna borgarinnar undanfarin ár, að viðræður ættu að leiða til þess að íþróttahús yrði byggt yfir félagið og grunnskólana í nágrenninu. 

Bágborin íþróttaaðstaða barna og unglinga í Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla, Vogaskóla og Langholtsskóla hefur, áratugum saman, gert það að verkum að börn hverfisins fá ekki íþróttakennslu í samræmi við aðalnámskrá. Sameiginlegar yfirlýsingar íþróttafélaga og skóla hafa lagt áherslu á að úr þessu verði bætt og þá m.a. með íþróttahúsi við hlið félagsheimilis Þróttar. Hugmyndum borgarstjóra um að setja þá fjármuni sem ætlaðir eru íþróttahúsi fyrir börn og unglinga í Laugardal, í óskilgreindan salarhluta í Þjóðarhöll, er alfarið hafnað. 

Um langa hríð hefur viðhald Reykjavíkurborgar á þeim íþróttainnviðum sem borgin á í hverfinu mætt afgangi. Meðal þeirra er Eimskipsvöllurinn í hjarta Laugardals en ástand hans er orðið svo slæmt að völlurinn er talinn hættulegur leikmönnum og er starfræktur á undanþágu. Líklegt er að KSÍ neyðist til að banna fjölda keppnisleikja fullorðinna á vellinum frá og með þessu vori og t.d. yrðu þá nýkrýndir Reykjavíkurmeistarar Þróttar í kvennaflokki útilokaðir frá því að spila leiki á eigin heimavelli. Þá hefur það sýnt sig að börn og unglingar sem æfa knattspyrnu hjá Þrótti fá mun færri æfingatíma en börn og unglingar annarra hverfa enda styðst félagið við einn völl í sjö mánuði á ári, fyrir eina fjölmennustu knattspyrnudeild landsins. 

Um leið og aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Þróttar fagnar þeirri ákvörðun Reykjavíkurborgar að Þróttur og Ármann verði hverfafélög Voga- og Höfðabyggar og hlakkar til að takast á við það verkefni, þá minnir hún á að sú ákvörðun leysir borgina ekki undan þeirri skyldu að halda áfram nauðsynlegri uppbyggingu í Laugardal. 

Í borg sem ætlar að vera heilsueflandi og setja börn og unglinga í forgang er nauðsynlegt að tryggja jafnt aðgengi allra að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Þróttar hvetur því hér með Reykjavíkurborg til að standa við framangreinda viljayfirlýsingu, svo hægt verði að tryggja að börn og unglingar í Laugardal hafi sama aðgang að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og börn og unglingar annarra hverfa.

F.h. Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Þróttar, Laugardal

A picture containing linedrawing

Description automatically generated

____________________________

Bjarnólfur Lárusson – Formaður

Sími 844-4783