Gema Simon gengur til liðs við Þrótt

Ástralska landsliðskonan Gema Simon hefur skrifað undir samning um að leika með Þrótti í Bestu deildinni á komandi sumri.

Gema er fædd 1990, hún er gríðarlega reynslumikill leikmaður sem lengi hefur verið í fremstu röð í heimalandi sínu. Hún hefur mestan sinn feril leikið í efstu deild kvenna í Ástralíu, aðallega með Newcastle Jets en þaðan kemur hún til Þróttar. Þá hefur hún einnig leikið með Avaldsnes í Noregi og víðar. Gema Simon á að baki 11 landsleiki fyrir Ástralíu og var í leikmannahópnum á Heimsmeistaramóti kvenna í Frakklandi 2019. Þá hefur hún leikið með u20 ára liði Ástrala.  

„Við erum ánægðir með það Þróttarar, að geta laðað þennan leikmann til landsins enda er Gema mjög sterkur varnarmaður með alþjóðlega reynslu. Við trúum því að hún eigi eftir að láta mikið að sér kveða á Íslandi í sumar,“ segir Kristján Kristjánsson formaður knd. Þróttar. „Við viljum bæta okkur ár frá ári og teljum að Gema geti skipt máli þar, auk þess sem hún muni með reynslu sinni hafa mjög góð áhrif á ungan leikmannahóp, jafnt innan sem utan vallar.“