Ungir Þróttarar í landsliðshópum


Fjölmargir ungir Þróttarar prýða landsliðshópa yngri landsliða Íslands þessa dagana.

Katla Tryggvadóttir hefur nýlokið leik með u17 liði kvenna á Írlandi þar sem aðeins einu marki munaði að Ísland kæmist upp úr sínum milliriðli og í lokakeppnina í sumar.

Þær stöllur Andrea Rut Bjarnadóttir, Jelena Tinna Kujundzic og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir hafa verið valdar í lokahóp u19 ára landsliðs kvenna fyrir undankeppni EM sömuleiðis. Ísland er í riðli með Englandi, Wales og Belgíu, en leikið er á Englandi dagana 6.-12. apríl. Lokakeppnin verður haldin í Tékklandi 27. júní – 9. júlí.

Þá hafa þær Brynja Rán Knudsen og Hafdís Hafsteinsdóttir verið valdar í úrtakshóp fyrir u15 ára lið kvenna.

Kolbeinn Nói Guðbergsson er svo fulltrúi okkar í u15 ára liði drengja.

Framúrskarandi hjá þessum ungu Þrótturum og ber unglingastarfinu mjög gott vitni.