Orri Sigurjónsson hefur tekið við starfi styrktarþjálfara meistaraflokka Þróttar og mun sinna jafnt kvenna og karlaliði félagsins. Orri er rétt liðlega þrítugur Akureyringur sem á að baki langan feril sem leikmaður, mestan part með Þór á Akureyri en einnig hefur hann leikið með Fram. Orri hefur leikið 38 leiki í efstu deild og tæplega 140 leiki í næst efstu deild og býr því að mikilli reynslu sem leikmaður og er því öllum hnútum kunnugur þegar kemur að styrktarþjálfun knattspyrnumanna.
Kristján Kristjánsson, form. knd. Þróttar segir: ,,Það er frábært að fá Orra til starfa hjá okkur, hann býr að góðri reynslu sem leikmaður og er mjög vel undirbúinn til að takast það verkefni á hendur að þjálfa bæði meistaraflokkslið félagsins á næstu árum. Orri bætist í mjög öflugan og samhentan þjálfarahóp í Þrótti, hóp sem hefur mikinn metnað og ætlar sér að ná langt í sínu starfi. Við bjóðum Orra velkominn í Laugardalinn.”