Guðrún og Gísli endurnýja samning sinn við Þrótt

Þau Guðrún Þóra Elfar aðstoðarþjálfari kvennaliðs Þróttar og Gísli Þór Einarsson, markmannsþjálfari, hafa bæði endurnýjað samning sinn við Þrótt. Guðrún tók við sem aðstoðarþjálfari haustið 2023 en hún hefur mikla reynslu af þjálfun í yngri flokkum, bæði hjá Þrótti og víðar, og hefur þar þjálfað marga af framtíðarleikmönnum Þróttar. Gísli kom til liðs við Þrótt frá Val fyrir rúmu ári og hefur náð frábærum árangri í sinni þjálfun í gegnum tíðina. Samstarf hans og Mollee Swift, aðalmarkmanns Þróttar síðastliðið sumar, var aðdáunarvert en Mollee var valinn besti markvörður Bestu deildarinnar. Bæði Guðrún og Gísli hafa leikið stórt hlutverk í þjálfarasveit Þróttar og munu gera áfram.

Kristján Kristjánsson, formaður knd. Þróttar segir: ,,Við leggjum mikla áherslu á stöðugleika og festu í þjálfun okkar meistaraflokka. Þau Guðrún Elfar og Gísli Þór hafa skilað afburðagóðri vinnu og við fögnum því að fá að njóta starfskrafta þeirra áfram á næsta tímabili.”