Edda Garðarsdóttir framlengir við Þrótt

Edda Garðarsdóttir hefur framlengt samning sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna í Þrótti Reykjavík til loka árs 2023.

Edda hefur verið aðstoðarþjálfari Þróttar frá árinu 2019 og unnið náið með Nik Chamberlain að uppbyggingu liðsins sem náði 3ja sæti í PepsiMax deild kvenna sl. sumar og komst í úrslit Mjólkurbikarsins.

Edda er í hópi leikjahæstu landsliðskvenna Íslands með 103 landsleiki og var lengi í atvinnumennsku í Svíþjóð en lék einnig á Englandi. Hún var í íslenska landsliðinu sem lék í fyrsta sinn í lokakeppni EM árið 2009 í Finnlandi og þjálfaði lið KR í úrvalsdeildinni áður en hún kom til Þróttar.

,,Við erum ekkert minna en himinlifandi með þessa ráðningu,“ segir Kristján Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar Þróttar. ,,Edda Garðarsdóttir hefur verið eitt mikilvægasta púslið í uppbyggingu kvennaliðs Þróttar og sú reynsla, færni og metnaður sem hún færir ungu liði og félaginu í heild er einstaklega mikilvæg.“