Nafnasamkeppni

Félagsmenn kjósa um nafn á nýja gervigrasvallasvæði Þróttar

Aðalstjórn Þróttar hefur samþykkt að leitað verði til félagsmanna við nafnagift á nýrri glæsilegri knattspyrnuaðstöðu með tveimur nýjum glæsilegum gervigrasvöllum norðan við ­Þróttarheimilið. Uppbygging svæðisins lýkur nú í ágúst og verða vellirnir vígðir í kjölfarið. Svæðið mun verða heimavöllur barna- og unglingastarfs félagsins og er vilji aðalstjórnar að heiti svæðisins og vallanna verði með skírskotun til sögu félagsins eða staðsetningu svæðisins. Aðalstjórn hefur leitað til knattspyrnudeildar og Sögu- og minjanefndar við útnefningu á valnefnd sem mun síðan vera stjórninni innan handar við val á nafni gervigrasvallarsvæðisins. Óskað er eftir því að félagsmenn sendi tillögur sínar á netfangið trottur@trottur.is og valnefnd mun síðan taka ákvörðun um hvaða nöfn verður kosið um í kosningu félagsmanna um nafngift svæðisins og vallanna.

Lagt verður upp með að svæðinu verði gefið nýtt nafn og að völlunum tveimur verði svo gefið sitthvort nafnið til heiðurs félagsmanna sem hafa unnið ómetanlegt starf í þágu Þróttar.

Skila þarf inn tillögum að nöfnum fyrir bæði svæðið í heild og fyrir vellina tvo fyrir 15. ágúst, og hvetur aðalstjórn alla félagsmenn að taka þátt og móta sögu félagsins. Aðalstjórn hvetur einnig alla Þróttara til að skrá sig sem félagsmenn á heimasíðu félagsins.