Iaroshenko og Pikul skrifa undir 2ja ára samning

Þeir Kostyantyn Iaroshenko og Kostyantyn Pikul skrifuðu undir nýja 2ja ára samninga við Þrótt í dag. Þeir félagar léku saman í næst efstu deild í Úkraínu með liðinu Alyans, þar til styrjöldin hrakti þá að heiman, og hafa nú dvalið á Íslandi frá síðasta vori. Þeir hafa báðir leikið frábærlega með Þrótti í sumar og óhætt að segja að þeir hafi verið í lykilhlutverkum í liðinu sem tryggði sér fyrir skemmstu sæti í Lengjudeild að ári.

Stjórn knd. lagði mikla áherslu á að halda þeim báðum í félaginu áfram og hefur nú tekist það ætlunarverk sitt. Iaroshenko hefur á sínum langa ferli leikið í efstu deild í bæði Rússlandi og Úkraínu svo eitthvað sé nefnt, en Kostyantyn Pikul hefur leikið mestan hluta feril síns með Alyans og verið fyrirliði þess síðustu árin, en það var í 2. sæti næst efstu deildar í Úkraínu þegar keppni var hætt vegna stríðsátaka snemma á þessu ári.

Við bjóðum þá félaga áfram hjartanlega velkomna í Laugardalinn.