Tilnefningar til íþróttamanns Þróttar 2022

Næstkomandi sunnudag kl. 13 (við viljum sjá alla á svæðinu) verður íþróttamaður ársins í Þrótti útnefndur ásamt því að orður verða veittar fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Í ár stendur valið á milli Írisar markvarðar m.fl. Þróttar og núverandi íþróttarmanns ársins og hennar Elísabetar leikmanns m.fl. kvenna í blaki.

Blakdeild Þróttar tilnefnir Elísabetu Nhien Yen Huynh til Íþróttamanns Þróttar og velur hana blakara ársins.

Elísabet hefur leikið með meistaraflokki Þróttar frá árinu 2016, fyrst í stöðu kantsmassara þar sem hún var afar öflug bæði í sókn og vörn, en nú spilar hún stöðu frelsingja sem er sérhæfður varnarleikmaður. Elísabet er uppalin í Þrótti og hefur alla tíð verið lykilleikmaður í sínu liði. Hún er góð íþróttakona, æfir vel, er kappsöm og metnaðarfull, en um leið brosmild og jákvæð. Það er gott að vera með Elísabetu í liði. Í lok árs 2021 greindist Elísabet með krabbamein og þurfti að taka hlé frá blakiðkun í fyrsta sinn á sínum ferli. Við tók 7 mánaða ströng meðferð sem lauk með því að hún sigraðist á meininu í lok júní á þessu ári. Elísabet var að sjálfsögðu mætt aftur á æfingar í ágúst og á keppnisvöllinn þegar nýtt tímabil hófst og hefur spilað alla leiki með meistaraflokki síðan. Elísabet sýndi mikla þrautseigju í sínum veikindum og stefndi allan tímann á að komast sem allra fyrst aftur á blakvöllinn. Liðið skipti öllu máli sem sýnir hversu dýrmæt hún er fyrir liðsfélaga sína. Elísabet er fyrirmyndar íþróttakona sem leggur sig alla fram innan vallar sem utan og blakdeild Þróttar tilnefnir hana með stolti til Íþróttamanns Þróttar árið 2022.

Ljósmynd: A & R Photo

Knattspyrnudeild Þróttar velur Írisi Dögg Gunnarsdóttur Knattspyrnumann ársins í Þrótti árið 2022 og tilnefnir hana jafnframt til Íþróttamanns félagsins.

Íris Dögg Gunnarsdóttir markvörður meistaraflokks kvenna hefur sýnt frábæra frammistöðu með Þrótti frá því kom fyrst til félagsins haustið 2020. Hún hefur mikinn metnað og vilja sem skilað hefur stöðugum framförum auk þess sem hún hefur veitt mikilvæga forystu í ungum leikmannahópi. Íris er sérstaklega samviskusamur íþróttamaður sem leggur sig jafnan alla fram, bæði í æfingum á keppni og er mikilvæg fyrirmynd yngri iðkenda í félaginu. Íris átti stóran þátt í að kvennalið félagsins sló stigamet þess í efstu deild, hún lék alla leiki sumarsins frá upphafi til enda og skoraði reyndar eitt mark í lokaleiknum, hennar fyrsta mark fyrir Þrótt. Síðast en ekki síst þá var hún valinn í A–landsliðið á þessu ári, verðskuldað, en á þeim vettvangi hefur Þróttur ekki áður átt leikmann í kvennaflokki og reyndar afar sjaldan yfirhöfuð. Með landsliðinu tók Íris þátt í EM kvenna síðastliðið sumar og var einnig valin til landsliðsæfinga í haust. Íris Dögg verðskuldar því nafnbótina Knattspyrnumaður ársins hjá Þrótti á árinu 2022.

Þróttur óskar Elísabetu og Írisi innilega til hamingju.