Íris Dögg Gunnarsdóttir markvörður meistaraflokks kvenna hefur verið kjörinn íþróttamaður Þróttar, annað árið í röð.
Íris er jafnframt knattspyrnumaður félagsins 2022. Hún hefur sýnt frábæra frammistöðu með Þrótti frá því kom fyrst til félagsins haustið 2020. Hún hefur mikinn metnað og vilja sem skilað hefur stöðugum framförum auk þess sem hún hefur veitt mikilvæga forystu í ungum leikmannahópi. Íris er sérstaklega samviskusamur íþróttamaður sem leggur sig jafnan alla fram, bæði í æfingum á keppni og er mikilvæg fyrirmynd yngri iðkenda í félaginu. Íris átti stóran þátt í að kvennalið félagsins sló stigamet þess í efstu deild, hún lék alla leiki sumarsins frá upphafi til enda og skoraði reyndar eitt mark í lokaleiknum, hennar fyrsta mark fyrir Þrótt. Síðast en ekki síst þá var hún valinn í A–landsliðið á þessu ári, verðskuldað, en á þeim vettvangi hefur Þróttur ekki áður átt leikmann í kvennaflokki og reyndar afar sjaldan yfirhöfuð. Með landsliðinu tók Íris þátt í EM kvenna síðastliðið sumar og var einnig valin til landsliðsæfinga í haust.
Til hamingju Íris!