Nýir heiðursfélagar Þróttar

Aðalstjórn félagsins hefur veitt þeim Helgu Emilsdóttur, Jón Birgi Péturssyni og Hjálmari Þ. Baldurssyni æðstu viðurkenningu félagsins og gert þau að heiðursfélögum.

F.v. Hjálmar og Bjarnólfur formaður

Hjálmar Þ. Baldursson heiðursfélagi

Hjálmar hóf knattspyrnu- og handboltaiðkun á fyrstu árum félagsins, og lék upp alla flokka í báðum greinum. Hann tók dómarapróf 1980 og landsdómarapróf 1983, sem var skemmri tími en aðrir Þróttarar höfðu afrekað á undan honum. Á löngum dómaraferli hefur hann dæmt á vel annað þúsund leiki fyrir félagið.

F.v. Jón Birgir og Bjarnólfur

Jón Birgir Pétursson heiðursfélagi

Jón Birgir var stofnmeðlimur í Þrótti og var í liði 4. flokks liði Þróttar sem varð haustmeistarar 1951, en það var fyrsti titill í sögu félagsins. Jón Birgir lék upp alla flokka félagsins þ.m.t. meistaraflokki um nokkurra ára skeið. Hann þjálfaði jafnframt yngri flokka félagsins. Á seinni árum hefur hann verið ötulastur Þróttara við að skrá sögu félagsins og ritaði m.a. 50 ára afmælisrit Þróttar, Lifi Þróttur sem kom út árið 1999. Hann hefur einnig skráð sögu Eyjólfs Jónssonar, annars aðalstofnanda Þróttar.

Helga Emilsdóttir

Helga Emilsdóttir heiðursfélagi

Helga var ein af frumkvöðlum kvenna í handbolta í Þrótti. Hún var Íslandsmeistari í 2. flokki 1952, Íslands- og Reykjavíkurmeistari í 2. flokki 1953 og Íslandsmeistari í meistaraflokki 1957. Hún var í hópi fyrstu landsliðskvenna Þróttar þegar hún var valin í fyrsta kvennalandsliðið í handbolta, 1956. Hún var svo í landsliðinu sem varð Norðurlandameistarar 1964. Auk þess að vera í fremstu röð í sinni íþrótt um langt skeið var Helga brautryðjandi í félagsstarfi kvenna í Þrótti, en hún var fyrst kvenna til að taka sæti í aðalstjórn og sat þar á árunum 1955 til 1960.