Aðalstjórn félagsins afhenti á dögunum heiðursmerki fyrir störf í þágu félagsins eða íþróttahreyfingarinnar.
Silfurmerki Þróttar
Mads Arne Jonsson
Mads Arne kom sem ungur maður til Íslands á 9. áratugnum. Á vegi hans varð ungur Þróttari, Sigurður Hallvarðsson, og ákvað Mads að skreppa á leik með Þrótti; og ekki var aftur snúið. Mads hefur verið fastagestur á leikjum Þróttar í að nálgast 40 ár og hefur stutt félagið í gegnum súrt og sætt í gegnum árin.
Gullmerki Þróttar
Katrín Gústafsdóttir
Katrín er ein af frumkvöðlum kvenna í handbolta í Þrótti. Hún var Íslandsmeistari í 2. flokki 1952, Íslands- og Reykjavíkurmeistari í 2. flokki 1953 og Íslandsmeistari í meistaraflokki 1957. Hún var í hópi fyrstu landsliðskvenna Þróttar þegar hún var valin í fyrsta landsliðið 1956. Hún var aftur valin í landsliðið árið 1960 og var þá fyrirliði liðsins á Norðurlandamótinu og var Katrín í hópi 10 bestu íþróttamanns ársins það ár, í vali á Íþróttamanni ársins.
Margrét Hjálmarsdóttir
Margrét er ein af frumkvöðlum kvenna í handbolta í Þrótti. Hún varð Íslandsmeistari í 2. flokki 1952, Íslands- og Reykjavíkurmeistari í 2. flokki 1953 og loks Íslandsmeistari með meistaraflokki 1957. Hún var valin í íslenska landsliðið 1964 og var önnur tveggja Þróttara sem urðu Norðurlandameistarar það ár.
Elín Guðmundsdóttir
Elín er ein af frumkvöðlum kvenna í handbolta í Þrótti. Hún varð Íslands- og Reykjavíkurmeistari með 2. flokki 1953 og Íslandsmeistari í meistaraflokki 1957. Hún var valin í íslenska landsliðið 1956, sem var fyrsta landslið kvenna í handbolta. Var hún þar með í hópi fyrstu landsliðsmanna Þróttar.
Helga Emilsdóttir
Helga var ein af frumkvöðlum kvenna í handbolta í Þrótti. Hún var Íslandsmeistari í 2. flokki 1952, Íslands- og Reykjavíkurmeistari í 2. flokki 1953 og Íslandsmeistari í meistaraflokki 1957. Hún var í hópi fyrstu landsliðskvenna Þróttar þegar hún var valin í fyrsta kvennalandsliðið í handbolta, 1956. Hún var svo í landsliðinu sem varð Norðurlandameistarar 1964. Auk þess að vera í fremstu röð í sinni íþrótt um langt skeið var Helga brautryðjandi í félagsstarfi kvenna í Þrótti, en hún var fyrst kvenna til að taka sæti í aðalstjórn og sat þar á árunum 1955 til 1960.