Þrátt fyrir fjöldatakmarkanir í upphafi árs þá fór árið 2022 vel af stað og tilkynnt var um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að sameiginlega myndu Knattspyrnufélagið Þróttur og Glímufélagið Ármann verða hverfafélög hins nýja Voga- og Höfðahverfis. Við þá ákvörðun er ljóst að félagssvæði félaganna muni tvöfaldast á næstu árum sem verður bæði krefjandi og um leið spennandi verkefni fyrir félögin. Þetta þýðir að félögin, sem hafa verið nágrannar til fjölda ára, munu á komandi árum færast nær því að fara að starfa í hjónabandi. Félögin hafa opnað samstarfsvettvang þar sem verið er að fara yfir mögulega samstarfsfleti þeirra til framtíðar til að auka þjónustu við iðkendur, létta á sjálfboðaliðastarfi, hagræða í rekstri en um leið að efla fagþekkingu í starfsemi félaganna.
Félags- og foreldrastarf Þróttar hefur aldrei verið jafn kröftugt og nú. Uppselt var á alla viðburði félagsins sem haldnir voru sem sýna hversu öflugt sjálfboðaliðastarf félagsins er og hversu góð stemning er innan raða félagsins. Stofnuð var ný rafíþróttardeild á árinu og skipulagt starf eldri borgara hefur tekist vel og því sannarlega hægt að segja að starfsemi félagsins fylgi félagsmönnum alla ævina. Með aðstoð HSÍ er vinna hafin við uppbyggingu handboltadeildar Þróttar og með tilkomu nýs íþróttarfulltrúa, Halls Hallssonar, eru bjartir tímar framundan hjá deildum félagsins.
Blakdeildin fékk aftur inn í Laugardalshöll í sumar eftir tveggja ára úthýsingu vegna viðgerða og er frábært að geta farið aftur á heimaleiki félagsins í hverfinu. Með bættri aðstöðu fyrir deildina mun starfið eflast og er að vænta töluverðar fjölgunar innan deildarinnar á næstu árum. Framundan er uppbyggingartímabil sterkrar blakdeildar sem hefur alla burði til að vera í fremstu röð á íslandi.
Meistaraflokkur karla náði frábærum árangri á árinu þegar þeir tryggðu sér réttinn til að spila að ári í Lengjudeildinni eftir að hafa fallið niður árið áður. Þessi árangur er alls ekki sjálfgefinn og það var virkilega gaman að sjá uppalda leikmenn spila lykilhlutverk í árangri liðsins. Meistaraflokkur kvenna fylgdi svo eftir góðum árangri í fyrra með því að verða Reykjavíkurmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins og slá félagsmet í stigasöfnun í Bestu deildinni. Þær halda því áfram að hækka rána hjá félaginu og eru miklar fyrirmyndir innan sem utan vallar. Íris Dögg íþróttamaður Þróttar var valin í A-landslið Íslands, fyrst kvenna fyrir hönd Þróttar og tók Íris þátt í EM kvenna í sumar.
Þróttur átti líka fulltrúa í yngri landsliðum Íslands en nokkur af okkar efnilegasta knattspyrnufólki spiluðu með yngri landsliðum Íslands á árinu. Þetta er staðfesting á því að við Þróttarar erum á réttri leið og eingöngu tímaspursmál hvenær fleiri A-landsliðsmenn koma úr röðum félagsins. Þróttarar unnu ekki eingöngu sigra innan vallar á árinu því utan vallar eru Þróttarar ávallt til fyrirmyndar og jákvæð ímynd félagsins í samfélaginu er ómetanleg. Því til sönnunar voru bæði meistaraflokkur karla og kvenna verðlaunuð á árinu fyrir háttvísi og prúðmennsku af KSÍ. Þá hlutu Þróttara-mömmurnar Berglind og Þorbjörg Helga Jafnréttisverðlaun KSÍ fyrir fótboltaspjöld kvennalandsliðsins.
Það kom forsvarsmönnum félagsins í opna skjöldu þegar Reykjavíkurborg tilkynnt félaginu í upphafi árs að sú vinna sem hafi verið unnin frá árinu 2016 og snýr að uppbyggingu íþróttarhúss á bílastæði félagsins fyrir íþróttarfélögin í Laugardalnum og skóla hverfisins, yrði að engu. Reykjavíkurborg hefur ákveðið að forgangsraða fjármunum borgarinnar í þjóðarhöll á kostnað íþróttarhúss með óheftu aðgengi íbúa Laugardals.
Ákvörðun borgarinnar gengur í berhögg á anda þess samtals sem átt hefur sér stað undanfarin ár við Reykjavíkurborg og sömuleiðis þvert á yfirlýsingar borgarinnar um að setja skuli uppbyggingu fyrir börn og unglinga í forgang þegar kemur að úthlutun fjármuna til íþróttastarfs.
Í framhaldi af því sendi aðalstjórn Þróttar frá sér yfirlýsingu þann 1. mars þessa árs um að þjóðarhöll verði ekki byggð á kostnað barna- og unglingastarfs í Laugardal og hefur félagið sagt sig frá fyrri viljayfirlýsingu frá 24. mars 2021 um að félagið láti frá sér svæði sem það hefur til umráða. Félagið mun því ekki láta frá sér nein svæði sem það hefur til umráða frá samkomulagi milli félagsins og borgarinnar frá árinu 1996.
Eftir langa bið og strembið kæruferli þá hófust framkvæmdir við uppbyggingu á nýja gervigrasvallarsvæði Þróttar á fyrstu mánuðum ársins. Það verður ekki annað sagt en að framkvæmdirnar gengu vel og útkoman hreint út sagt frábærir knattspyrnuvellir. Þróttur er í dag með eina bestu aðstöðu landsins til knattspyrnuiðkunar og með það í farteskinu sem og hið öfluga barna-og unglingastarf félagsins þá munum við innan fárra ára sjá alla flokka félagsins í efstu deildum. Samhliða formlegri opnun vallanna þá fór félagið í nafnasamkeppni á svæðinu og var niðurstaðan tilvitnun í sögu félagsins og fékk svæðið nafnið Þróttarheimar og keppnisvellirnir sjálfir voru nefndir eftir frægri strætóleið í hverfinu þ.e. Sund – Hagar. Því til viðbótar var tekin sú ákvörðun að öll svæði félagsins yrðu endurnefnd út frá félaginu sjálfu og var gamli TBR völlurinn nefndur Álfheimar, Þríhyrningur heitir í dag Miðheimar og knattspyrnuvöllurinn við Suðurlandsbraut heitir Jötunheimar.
Sjálfsaflafé verður mikilvægara með hverju árinu sem líður og ávallt áskorun innan félagsins að fá fyrirtæki til að styðja við rekstur þess. Því var afar ánægjulegt þegar bílaleigan AVIS, eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtækjum landsins samdi við Þrótt um heitið á aðalvelli félagsins, AVIS vellinum. Rekstur íþróttamóta verður ávallt einn mikilvægasti þátturinn í rekstri félagsins. Sjálfboðaliðar hafa í áratugi stutt við félagið með skipulagningu á íþróttamótum og er sú þekking sem skapast hefur við mótahaldið félaginu afar dýrmæt. Því tengdu hefur verið tekin sú stefnumarkandi ákvörðun innan félagsins að öll knattspyrnumót verða haldin í framtíðinni undir nafni Reycup. Þetta er gert til að einfalda rekstur mótanna, ná fram samvinnu og hagræðingu, auka gæði þeirra og efla enn frekar vörumerkið Reycup.
Framtíðin er svo sannarlega björt hér í Laugardalnum og spennandi tímar framundan hjá Þrótti. Framkvæmdir við endurnýjun AVIS vallarins verður fyrirferðarmikið verkefni á komandi ári en verkinu mun ljúka sumarið 2023. Stærsta verkefni félagsins er uppbygging innviða þess og stefnumótun félagsins inn í framtíðina.
Aðalstjórn Þróttar vill þakka öllum sjálfboðaliðum félagsins fyrir ómetanlegt starf á árinu og óska fjölskyldum ykkar allra gleðilegs nýs árs.
Kveðja,
Bjarnólfur Lárusson
Formaður aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Þróttar