Ályktun aðalstjórna Þróttar og Ármanns vegna frumathugunar Framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll

Aðalstjórnir Þróttar og Ármanns fagna áformum um að Þjóðarhöll fyrir inniíþróttir verði staðsett í Laugardal og telur að það muni styrkja svæðið sem hjarta íþróttaiðkunnar í Reykjavík.

Félögin setja hins vegar mikla fyrirvara við þá hugmynd að Þjóðarhöll leysi aðstöðuvanda íþróttafélaganna í dalnum. Þeir fyrirvarar hafa á öllum stigum verið færðir til bókar á fundum með fulltrúum framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll og starfsmanni nefndarinnar.

Í undirbúningsvinnu með framkvæmdanefndinni var ítrekað óskað eftir því að lögð yrði fram greining á afkastagetu Þjóðarhallarinnar á þeim tímum sem hægt er að efna til æfinga. Er þar verið að horfa til tímabilsins milli klukkan 14 og 22 virka daga, 10 til 16 laugardaga, og þá fyrst og fremst mánuðina frá september til og með maí. 

Fulltrúar nefndarinnar treystu sér ekki til að leggja fram slíka greiningu.

Er það mat Þróttar og Ármanns að mannvirkið, eins og það hefur verið kynnt, muni ekki anna þörf hverfisfélaganna fyrir æfingatíma fyrir börn, unglinga og meistaraflokka. Þá telja félögin einsýnt, miðað við kynntar tillögur um rekstur Þjóðarhallar, að æfingar félagsfólks, barna, unglinga og meistaraflokka, muni verða víkjandi í starfsemi mannvirkisins, eins og er nú staðan þegar kemur að æfingum í Laugardalshöll. Það er óviðunandi af hálfu félaganna.

Þá virðist ljóst að ekki stendur til að gera breytingar á rekstri Laugardalshallar og að íþróttafélögin verði áfram víkjandi í henni, líkt og verið hefur undanfarna áratugi með þeim afleiðingum sem allir þekkja. Laugardalshöllin mun því aldrei anna starfsemi Þróttar og Ármanns auk þess sem skólarnir í hverfinu mæta afgangi áfram, ef svo fer fram sem horfir.

Aðstöðuvandi hverfisfélaganna í Laugardal er bráðamál. Brotthvarf yngri iðkenda vegna skorts á æfingaaðstöðu er raunverulegt vandamál sem félögin glíma við af vaxandi þunga. Þessi skortur hamlar uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Laugardalnum. Við þessu ástandi þurfa borgaryfirvöld að bregðast strax.

Undir þessar sameiginlegu ályktun skrifa Bjarnólfur Lárusson formaður Þróttar og Guðrún Harðardóttir formaður Ármanns fyrir hönd félaganna.

https://trottur.is/wp-content/uploads/2022/05/alyktun-throttur-armann-2023-02-16.pdf